Vilja að Ísland ítreki afstöðu sína

Viðreisn vill að íslensk stjónvöld ítreki afstöðu sína.
Viðreisn vill að íslensk stjónvöld ítreki afstöðu sína. Samsett mynd/AFP/ Ahmad Gharabli/mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu um vopnahlé og mannúðaraðstoð í Palestínu. Sigmar Guðmundsson þingmaður er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. 

Í nóvember samþykkti Alþingi að kalla eftir vopna­hléi fyrir botni Miðjarðarhafs. Einnig voru öll of­beld­is­verk fordæmd. Sigmar segir margt hafa gerst síðan sú ályktun var samþykkt og því sé nauðsynlegt að árétta afstöðu Íslands.

„Við erum að kalla eftir því að utanríkisráðherra, fyrir hönd Íslendinga, árétti ákall Íslendinga fyrir vopnahléi. Það hefur auðvitað mikið gerst síðan Alþingi samþykkti tillöguna á sínum tíma. Það eru búnar að vera miklar friðarumleitanir í gangi sem ekki hafa borið árangur og virðast ekki ætla að bera árangur,“ segir Sigmar og bætir við:

„Það eina sem alþjóðasamfélagið, og þar með Íslendingar, geta gert er að reyna að auka þrýstinginn á að þarna náist vopnahlé, og helst auðvitað varanlegt vopnahlé.“

Krefjist að gíslum verði sleppt

Sigmar segir einnig mikilvægt að íslensk stjórnvöld geri skýra kröfu um að þeim gíslum sem hryðjuverkasamtök Hamas tóku 7. október verði sleppt.

„Það er gjörsamlega óásættanlegt að fólk sé í haldi í svona langan tíma við þær aðstæður sem þarna eru uppi. Yfirhöfuð er auðvitað ólíðandi að taka almenna borgara sem gísla,“ segir Sigmar.

Þá sé jafnframt mikilvægt að fordæma þær árásir sem hafa verið gerðar á sjúkrahús, starfsmenn mannúðarsamtaka og blaðamenn.

Sigmar skilur ekki hvers vegna einhver alþingimaður myndi ekki samþykkja …
Sigmar skilur ekki hvers vegna einhver alþingimaður myndi ekki samþykkja tillöguna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Telur að tillagna verði samþykkt

Sigmar segir Viðreisn ekki hafa átt sérstakt samtal við aðra flokka um tillöguna. Hann býst þó við því að Alþingi samþykki tillöguna.

„Við höfum ekki átt neitt sérstakt samtal við aðra flokka um þessa tillögu, en við höfum auðvitað heyrt hvernig aðrir flokkar tala í ræðum inn á þingi og í viðtölum,“ segir Sigmar og bætir við:

„Ég get ekki ímyndað mér að það sé einhver á móti því að Ísland láti skýrt í sér heyra og tali fyrir friði á alþjóðavettvangi, ekki síst í svona alvarlegum stríðsátökum eins og þarna eiga sér stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert