Allar líkur á að Seðlabankinn lækki næst vexti

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir allar líkur á að Seðlabankinn fari í lækkun á stýrivöxtum á næsta vaxtaákvörðunarfundi miðað við þá þróun sem sé í gangi. Þetta sagði hann við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í dag.

Sigurður sagði á þriðjudaginn að hann teldi að aðstæður í efnahagslífinu gæfu Seðlabankanum svigrúm til að lækka stýrivexti en peningastefnunefnd Seðlabankans kynnti ákvörðun sína í fyrradag um að halda vöxtunum óbreyttum í 9,25%, eins og þeir hafa verið frá því í ágúst á síðasta ári.

„Ég ítrekaði það reyndar sem kom ekki fram í fréttinni á RÚV að Seðlabankinn er sjálfstæður í sínum ákvörðunum. Það var mitt mat og fólks í kringum mig að ýmis teikn væru á lofti um að við gætum farið að hefja vaxtalækkunarferli,“ segir Sigurður Ingi við mbl.is.

Áhyggjuefni hversu hátt raunvaxtakerfið er orðið

Hann segist heyra að Seðlabankinn sé farinn að horfa í þá átt en telji að hann þurfi að sjá frekari teikn um minni þenslu, hún sé enn til staðar og að Seðlabankinn vilji sjá frekari framgang þess að hér séu komnir á fjögurra ára langtíma kjarasamningar.

„Það er áhyggjuefni hversu hátt raunvaxtakerfið er orðið og að ekki sjáist neinar vísbendingar að mati Seðlabankans um snögga kólnun þó svo að það geti gerst. Seðlabankinn heldur því fram að með því að halda þessu vaxtastigi svona háu þá séu líkur til þess að verðbólgan fari hraðar niður heldur en menn eru að spá,“ segir fjármála- og efnahagsráðherra.

Sigurður segir að Seðlabankinn bendi á það séu ekki nein teikn á lofti um að verðbólgan lækki nema að væntingarnar fari niður og í því ljósi sé áhugavert að átta sig á því að 80 prósent hagaðila telja að aðhaldið sé ýmist nægjanlegt eða of mikið. En um leið sé of stór hópur sama hóps með of miklar væntingar um framtíðar verðbólgu.

Næsta stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans verður kynnt í ágúst og spurður hvort hann geri sér vonir um að vextir verði lækkaðir þá segir Sigurður:

„Ég held að það séu allar líkur á því miðað við þróunina,“ segir Sigurður og bendir á að Seðlabankinn geti tekið ákvörðun fyrr ef hagkerfið snögg kólni og það sjáist fyrir sterkari vísbendingar um að við séum á hraðri réttari leið.

„Við erum á réttri leið en það þarf meira til að mati Seðlabankans,“ segir Sigurður Ingi, sem tók við embætti fjármála- og efnahagsráðherra af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur í síðasta mánuði.

Væntingar um að verðbólgan fari hraðar niður

Verðbólgan mælist sex prósent. Spurður hvort hann sjái fyrir sér að hún fari að hjaðna segir hann:

„Já ég hef alveg klárlega væntingar til þess að hún fari hraðar niður og við munum fara að sjá vaxtalækkunarferlið koma. Við erum búin að sjá samninga nást á opinberum markaði í takti við aðra samninga og það er mikilvægt að menn átti sig á því að þar er búið að gefa út þetta merki um hvað hagkerfið geti gert. Við erum búin að sýna fram á hvað við ætlum að gera og sýna fram á hvernig það raðast inn í fjármálaáætlunina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert