Landsréttur hefur þyngt refsingu Skúla Helgasonar úr þriggja og hálfs árs fangelsisvist upp í fimm ára fangelsisvist fyrir tilraun til manndráps í Keflavík á nýársnótt 1. janúar 2020.
Skúli stakk brotaþola ítrekað með með vasahníf með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut samtals fimm stunguáverka, þar af einn sem náði inni í kviðarhol og í gegnum milta svo fjarlægja þurfti miltað og annan sem olli loftbrjósti.
Héraðsdómur hafði sakfellt manninn á síðasta ári fyrir tilraun til manndráps. Þrátt fyrir að lágmarksrefsing fyrir slíkt eigi að lágmarki vera fimm ára fangelsisvist ákvað héraðsdómur að taka tillit til ákvæðis um refsilækkun þar sem hann framdi verknaðinn í tengslum við átök við aðra.
Landsréttur tekur ekki undir það að það dugi til refsilækkunar þar sem Skúla hefði mátt vera ljóst að brotaþoli hefði getað dáið.
„Er þá horft til þess að ákærði beitti hníf við verknaðinn sem hann stakk brotaþola ítrekað með,“ segir í dómi Landsréttar.
Er Skúla gert að greiða brotaþola 2.104.549 krónur með vöxtum. Þá er honum einnig gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins sem hljóðar upp á 1.884.067 krónur.