Fylgi Höllu Hrundar hríðlækkar hjá Gallup

Halla Hrund tapar 11 prósentustigum á milli kannanna.
Halla Hrund tapar 11 prósentustigum á milli kannanna. Ljósmynd/Aðsend

Fylgi Höllu Hrundar Logadóttur hrynur um 11 prósentustig í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup og eru hún og Katrín Jakobsdóttir nú hnífjafnar. Halla Tómasdóttir mælist nú með meira fylgi en Jón Gnarr.

Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem RÚV greinir frá.

Halla Hrund mældist með 36% fylgi í könnun Gallup fyrir viku síðan en mælist nú með 25%. Katrín Jakobsdóttir mælist með 25% fylgi og bætir við sig tveimur prósentustigum frá síðustu könnun.

Halla Tómasdóttir stóreykur fylgið

Baldur Þórhallsson mælist með 18% fylgi og tapar einu prósentustigi á milli kannanna.

Athygli vekur að Halla Tómasdóttir stóreykur fylgi sitt og mælist nú með 11%, en hún mældist með 4% í síðustu könnun. Jón Gnarr er dottinn fyrir neðan Höllu Tómasdóttur og mælist nú með 10%.

Arnar Þór Jónsson sækir einnig í sig veðrið og mælist nú með 6% fylgi, en hann mældist með 3% fylgi í síðustu könnun Gallup.

Viktor með 2% fylgi

Viktor Traustason mælist með 2% fylgi og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir með 1% fylgi. Aðrir frambjóðendur mælast með minna en 1% fylgi.

Greinilegt er að miklar sviptingar hafa orðið á fylgi frambjóðenda síðan á föstudaginn í síðustu viku en þá voru haldnar kappræður hjá Ríkisútvarpinu og Halla Hrund mætti í Spursmál á mbl.is sem vakti þjóðarathygli.

Úrtakið var 2.525 manns og svarhlutfallið 49,5 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert