Landsréttur staðfesti fyrr í dag dóm héraðsdóms yfir Sigurjóni G. Halldórssyni og hlýtur hann 15 mánaða skilorðsbundinn dóm og er gert að greiða í sekt 64 milljónir króna.
Var hann einn af af fimm aðilum sem sakfelldir voru í héraði á síðasta ári fyrir stórfelld skattalagabrot og brot á bókhaldslögum. Voru þetta framkvæmdastjórar og stjórnarmenn hjá fyrirtækjunum Brotafl, Kraftbindingum og Starfsmenn ehf.
Þórkatla Ragnarsdóttir var ein þeirra en hún og Sigurjón áfrýjuðu þeim dómi til Landsréttar. Landsréttur sýknaði Þórkötlu fyrr í dag af öllum sakargiftum en hún hafði verið dæmd í héraði í 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða 64 milljónir króna í sekt.
Sigurjón þarf að greiða 64 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna, annars sætir hann fangelsisvist í 360 daga.
Grundvöllur kröfugerðarinnar í sakamálinu byggði einkum á þeirri forsendu að stefndu, einkum Sigurjón og Þórkatla, hefðu hlutast til um að annar maður gæfi út tilhæfulausa sölureikninga í nafni fjögurra einkahlutafélaga á hendur Brotafli.
Segir í dómi héraðsdóms á sínum tíma að greiðslurnar hafi í raun verið sýndargerningur. Um er að ræða reikninga sem voru gefnir út á milli 2012 til og með 2015.
Í febrúar á síðasta ári dæmdi Héraðsdómur Reykjaness fimm manns frá þremur mismundandi fyrirtækjum í skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfelld skattalagabrot, brot á lögum um virðisaukaskatt og brot á bókhaldslögum. Þrír hlutu þá 18 mánaða skilorðsbundinn dóm, þeir Konráð Þór Lárusson, Kristján Þórisson og Róbert Páll Lárusson, og tveir 15 mánaða dóm skilorðsbundið, þau Sigurjón G. Halldórsson og Þórkatla Ragnarsdóttir.
Eins og fyrr segir þá hefur Landsréttur hnekkt dómi héraðsdóms gegn Þórkötlu.
Samtals var fólkinu gert að greiða rúmar 450 milljónir kr. í sekt til ríkissjóðs, en nú er búið að draga frá 64 milljónir króna af þeirri upphæð þar sem Þórkatla hefur verið sýknuð.
Sagði héraðsdómur á þeim tíma að brot allra ákærðu hefðu talist stórfelld auk þess sem um samverknað hefði verið að ræða.
Uppfært klukkan 7.49
Upphaflega sagði í fréttinni að allir þeir sakfelldu í dómi héraðsdóms væru stjórnendur hjá Brotafli, það var ekki rétt. Er brotin, sem mennirnir voru sakfelldir fyrir, voru framin var Konráð Þór Lárusson stjórnarmaður í Kraftbindingum, sem nú heitir Summit ehf., og Róbert Páll Lárusson var framkvæmdastjóri Kraftbindinga. Kristján Þórisson var framkvæmdastjóri Starfsmanna ehf.
Sigurjón G. Halldórsson var annar eigandi Brotafls og Þórkatla Ragnarsdóttir var einnig hjá Brotafli.