Í byrjun apríl greindist fyrsta tilfelli kíghósta hérlendis frá árinu 2019. Síðan þá hafa 35 einstaklingar greinst með staðfestan kíghósta (PCR-próf). Til viðbótar hafa 20 einstaklingar fengið klíníska greiningu (greining læknis án rannsóknar).
Þetta kemur fram á vef landlæknis.
Þar segir að tilfellin séu ekki bundin við ákveðinn hóp, en séu flest á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir búi. En tilfelli hafa einnig greinst í öðrum umdæmum. Aldur þeirra sem hafa greinst er á bilinu 2–60 ára, að því er embættið greinir frá.
„Sóttvarnalæknir fær ekki tilkynningar um innlagnir á sjúkrahús en samkvæmt samtölum við lækna vitum við af tveimur einstaklingum sem hafa þurft að leggjast inn vegna kíghósta. Í öðru tilfelli var um ungling að ræða en í hinu fullorðinn einstakling en hvorugur var mjög alvarlega veikur.
Ef það eru einstaklingar í viðkvæmum hópi á ykkar heimili og þið teljið kíghósta vera kominn inn á heimilið hafið þá samband við heilsugæsluna ykkar, netspjall Heilsuveru eða Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar í síma 1700 varðandi ráðleggingar. Það getur verið ástæða til sýnatöku eða meðferðar. Eins og ávallt ættu veik börn ekki að mæta í leikskóla/skóla og veikir fullorðnir ekki í vinnuna. Einstaklingur með kíghósta getur verið smitandi í 4–5 vikur. Sjá frekari upplýsingar um kíghósta á vef embættis landlæknis,“ segir jafnframt í tilkynningunni.
Embættið segir ljóst að kíghósti sé í töluverðri dreifingu í samfélaginu um þessar mundir og full ástæða sé til að vernda viðkvæma hópa, sem séu sérstaklega börn undir 6 mánaða aldri.
„Bólusetning er áhrifarík leið til að koma í veg fyrir veikindi vegna kíghósta hjá ungum börnumog einnig til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi hjá öðrum ef þeir smitast. Þá er bólusetning á meðgöngu mikilvæg til að verja nýbura.“