Nú er að bíða og sjá

Nú bíða menn og sjá hvað gerist næst.
Nú bíða menn og sjá hvað gerist næst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkur skjálftavirkni mældist á Reykjanesskaga á milli klukkan 2 og 2.30 í nótt, en þá mældust um það bil 40 skjálftar með stuttu millibili. 

„Svo hefur það róast eftir það,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is. 

Aðspurð segir Sigríður að þetta hafi allt verið skjálftar í smærri kantinum. Sá stærsti hafi verið um 1,4 að stærð. 

„Gosinu virðist bara vera lokið og núna bíðum við bara og sjáum hvort að það dragi eitthvað meira til tíðinda, því landrisið heldur áfram.“

Færi ekki fram hjá neinum

Hún segir að búist sé við því að mesti veikleikinn á svæðinu sé í Sundhnúkagígasprungunni. „Þar er einfaldast fyrir kvikuna að troða sér þar inn aftur. En það er ekkert hægt að útiloka að hún komi upp einhvers staðar annarstaðar. Ef svo yrði þá færi það nú ekkert fram hjá neinum, þá yrðu það stærri skjálftar og miklu fleiri og miklu lengri aðdragandi.“

Farið verður betur yfir stöðu mála með almannavörnum á fundi sem hefst klukkan 8 í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert