Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms frá árinu 2022 um sýknu Ríkisútvarpsins af dómskröfum Bala ehf. og Geysis-Fjárfestingarfélags ehf. (Geysir hér eftir) í svokölluðu Brúneggjamáli.
Landsréttur hnekkti hins vegar dóm héraðsdóms um sýknu Matvælastofnunar og ber stofnunin nú skaðabótaábyrgð.
Þetta kom fram við dómsuppsögu í Landsrétti fyrr í dag.
Bali og Geysir höfðuðu mál á hendur RÚV og MAST á fyrri hluta 2021 vegna umfjöllunar Kveiks um starfsemi Brúneggja í lok árs 2016. Stuttu eftir þáttinn urðu Brúnegg gjaldþrota. Stefnendur töldu að RÚV og starfsmenn MAST hefðu farið með rangfærslur og með stefnu sinni vildu þeir að skaðabótaábyrgð RÚV og MAST yrði viðurkennd.
„Viðurkennt er að stefnda Matvælastofnun beri skaðabótaábyrgð gagnvart áfrýjendum, hvorum um sig, vegna tjóns sem Brúnegg ehf. varð fyrir vegna afhendingar stofnunarinnar á gögnum varðandi starfsemi einkahlutafélagsins til stefnda Ríkisútvarpsins ohf.,“ segir meðal annars í niðurstöðu dómsins.
Þá ber Matvælastofnun skaðabótaábyrgð vegna ummæla tveggja starfsmanna stofnunarinnar í þætti Kastljóss 28. nóvember 2016.
Allur málskostnaður Bala ehf., Geysis og Ríkisútvarpsins fyrir héraði er felldur niður. Matvælastofnun er gert að greiða Bala ehf. og Geysi fjórar milljónir króna í sitthvoru lagi í málskostnað fyrir héraði og fyrir Landsrétti.
Geysir er í eigu Kristins Gylfa Jónssonar, en Bali í eigu Björns Jónssonar, en þeir bræður eru fyrrverandi eigendur Brúneggja.