RÚV sýknað en Matvælastofnun skaðabótaskyld

Landsréttur hnekkti dóm héraðsdóms um sýknu Matvælastofnunar og ber stofnunin …
Landsréttur hnekkti dóm héraðsdóms um sýknu Matvælastofnunar og ber stofnunin nú skaðabótaábyrgð. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms frá árinu 2022 um sýknu Rík­is­út­varpsins af dómskröfum Bala ehf. og Geys­is-Fjár­fest­ing­ar­fé­lags ehf. (Geys­ir hér eft­ir) í svo­kölluðu Brúneggja­máli.

Landsréttur hnekkti hins vegar dóm héraðsdóms um sýknu Matvælastofnunar og ber stofnunin nú skaðabótaábyrgð.

Þetta kom fram við dómsuppsögu í Landsrétti fyrr í dag.

Bali og Geys­ir höfðuðu mál á hend­ur RÚV og MAST á fyrri hluta 2021 vegna um­fjöll­un­ar Kveiks um starf­semi Brúneggja í lok árs 2016. Stuttu eft­ir þátt­inn urðu Brúnegg gjaldþrota. Stefn­end­ur töldu að RÚV og starfs­menn MAST hefðu farið með rang­færsl­ur og með stefnu sinni vildu þeir að skaðabóta­ábyrgð RÚV og MAST yrði viður­kennd.

Matvælastofnun greiði 8 milljónir króna

„Viðurkennt er að stefnda Matvælastofnun beri skaðabótaábyrgð gagnvart áfrýjendum, hvorum um sig, vegna tjóns sem Brúnegg ehf. varð fyrir vegna afhendingar stofnunarinnar á gögnum varðandi starfsemi einkahlutafélagsins til stefnda Ríkisútvarpsins ohf.,“ segir meðal annars í niðurstöðu dómsins.

Þá ber Matvælastofnun skaðabótaábyrgð vegna ummæla tveggja starfsmanna stofnunarinnar í þætti Kastljóss 28. nóvember 2016.

Kristinn Gylfi Jónsson átti Brúnegg ásamt bróður sínum.
Kristinn Gylfi Jónsson átti Brúnegg ásamt bróður sínum. mbl.is/Helgi Bjarnason

Allur málskostnaður Bala ehf., Geysis og Ríkisútvarpsins fyrir héraði er felldur niður. Matvælastofnun er gert að greiða Bala ehf. og Geysi fjórar milljónir króna í sitthvoru lagi í málskostnað fyrir héraði og fyrir Landsrétti.

Geysir er í eigu Kristins Gylfa Jónssonar, en Bali í eigu Björns Jónssonar, en þeir bræður eru fyrrverandi eigendur Brúneggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert