Sleppt úr varðhaldi: Búið að klippa kanta á seðlum

Þjófarnir stálu tugum milljóna króna úr verðmætaflutningabíl.
Þjófarnir stálu tugum milljóna króna úr verðmætaflutningabíl. mbl.is/Árni Sæberg

Lögregla hefur sleppt úr haldi manni sem handtekinn var í tengslum við Hamraborgarránið svokallaða þar sem 20-30 milljónum króna var stolið úr öryggisbíl. Maðurinn var tíu daga í varðhaldi. 

Maðurinn hefur áfram stöðu grunaðs manns en lögreglu þótti ekki þjóna tilgangi að hafa manninn áfram í varðhaldi að sögn Heimis Ríkharðssonar, lögreglufulltrúa á lögreglustöð 3. 

Að sögn Heimis hafði maðurinn litaða peninga í fórum sínum og var handtekinn eftir að hann reyndi að koma þeim í umferð. 

„Það var búið að eiga við peningana, þannig að liturinn sjáist ekki eins vel, klippa kanta og annað,“ segir Heimir og jánkar því svo að einnig hafi verið reynt að þvo peningana.

Stóran hluta peninganna vantar. Heimir segir að maðurinn hafi gefið skýringar á því hvers vegna hann var með peningana undir höndum en tjáir sig ekki frekar um það hverjar þær skýringar voru. 

Jafnframt segir Heimir að lögregla sé að kanna vísbendingar í málinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert