Friðaður húnn gæti átt afturkvæmt á Alþingi

Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, segir hægt að setja gamla húninn …
Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, segir hægt að setja gamla húninn á hurðina að nýju. Samsett mynd

Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis segir að vel komi til greina að hurðarhúnn sem fjarlægður var af hurð þingflokksherbergs Miðflokksins í Alþingishúsinu verði settur á sinn stað aftur. Húsið er friðað að innan sem utan. 

Skipt var um hún sökum þess að sá sem fyrir var á hurðinni var orðinn lasinn auk þess sem öryggissjónarmið réðu för. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins kvartaði nýlega undan því að nær 150 ára gamall hurðarhúnn hafi verið fjarlægður af hurðinni á þingflokksherberginu. Sagði hann það ekki angra sig þó húnninn hafi ekki virkað sem skyldi og að dyrnar hafi gjarnan verið opnar í hálfa gátt. 

Nýi húnninn er öllu nýtískulegri.
Nýi húnninn er öllu nýtískulegri. Ljósmynd/Aðsend

Í stað gamla húnsins hefur verið settur nútímalegur stálhúnn með falsi. 

Aðgangsstýring

„Ég fór strax af stað að skoða málið. Þetta er algjörlega afturkræf aðgerð,“ segir Ragna. Hún segir að öryggissjónarmið hafi ráðið för þegar gamli húnninn var fjarlægður. 

„Þetta var vegna aðgangsstýringar og það er alveg til skoðunar að skipta aftur yfir í gamla húninn ef svo ber undir,“ segir Ragna. 

Friðað hús að utan sem innan 

Alþingishúsið við Kirkjustræti 14 var friðað í desember árið 1973 og var meðal þeirra fyrstu sem friðað var af húsafriðunarnefnd. Friðunin er samkvæmt A-flokki sem þýðir að húsið sé friðað að utan sem innan. 

Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri á húsverndarsviði hjá Minjastofnun Íslands, segir að Minjastofnun hafi ekki óskað eftir upplýsingum um málið en alla jafna ætti að hafa samráð við hana um varanlegar breytingar á húsinu. 

„Við hjá Minjastofnun höfum ekkert heyrt af þessu húnamáli í Alþingishúsinu umfram það sem fram kom í fréttum. Alþingi hefur oftast haft mjög gott samráð við okkur varðandi öll atriði að innan sem utan,“ segir Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka