Jón Gnarr, leikari og forsetaframbjóðandi, viðurkennir að hann hafi haft rangt fyrir sér í Icesave-málinu á sínum tíma, en hann kaus með samningunum þegar þeim var vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Jón er nýjasti gestur Spursmála og ræðir þar sína sýn á forsetaembættið, meðal annars hvernig hann myndi beita hinum svonefnda málskotsrétti forsetans.
Í máli Jóns kom fram að hann myndi beita réttinum ef stór hluti þjóðarinnar væri andvígur máli sem þingið hefði samþykkt, og nefndi hann m.a. ef viss fjöldi undirskrifta hefði safnast gegn tilteknu máli. Þá myndi hann beita réttinum ef um væri að ræða mál sem hann sjálfur teldi röng, líkt og ef þingið myndi banna fóstureyðingar alfarið eða leiða dauðarefsingu í lög.
Þá segir hann að 50 þúsund undirskriftir sem aflað væri gegn tilteknu lagafrumvarpi, sem safnað væri í gegnum Ísland.is, myndu nægja til þess að hann myndi vísa slíku máli til þjóðarinnar. Ekki er hann eins viss ef fjöldinn væri 40 þúsund.
Inntur um afstöðu sína til Icesave-málsins sagðist Jón á þeim tíma hafa verið handviss um að það rétta í stöðunni væri að samþykkja samningana sem þá lágu fyrir, en að hann hefði haft rangt fyrir sér þar.
Sagðist Jón geta fullyrt að hann hefði þrátt fyrir það vísað málinu til þjóðarinnar vegna undirskriftasöfnunar InDefence-hópsins.
Athygli vakti fyrir nokkru þegar Baldur Þórhallsson, mótframbjóðandi Jóns upplýsti áhorfendur Spursmála um að hann myndi ekki hvernig hann kaus í Icesave-atkvæðagreiðslunni á sínum tíma. Baldur var virkur þátttakandi í umræðunni um samningana sem prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og varaþingmaður Samfylkingarinnar á þeim tíma.
Viðtalið við Jón Gnarr má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan: