Mikilvægt að skoða af hverju þær velja þessa leið

Berglind segir grundvallarmálið að konur vilji ekki missa stjórn á …
Berglind segir grundvallarmálið að konur vilji ekki missa stjórn á eigin lífi og ekki afsala sér ábyrgð og völdum til heilbrigðiskerfisins. Samsett mynd

Virðing fyrir konunni og hennar sjálfsákvörðunarrétti verður ávallt að vera í forgrunni hjá þeim fagaðilum sem koma að fæðingu barns. Á sama tíma þarf að skýra betur réttindi og skyldur ljósmæðra. 

„Eitt af því sem við verðum að skoða er hvað þetta þýðir og hvernig við [ljósmæður] eigum að bregðast við þegar konur vilja gera hlutina á annan hátt en við leggjum til eða ráðleggjum. Getum við áfram unnið með konum og getum við fylgt þeim með þeim hætti sem þær vilja? Erum við frjáls að því?“

Þessu veltir Berglind Hálfdánsdóttir, dósent í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands, upp í samtali við mbl.is innt eftir sínu sjónarmiði á þeirri ákvörðun kvenna að fæða barn sitt án aðkomu fagfólks. 

Mikilvægt að skoða hvers vegna konur velja að fara þessa leið

Eins og mbl.is greindi frá á fimmtudag hafa vin­sæld­ir fæðinga án aðkomu fag­fólks farið vax­andi hér á landi á und­an­förn­um árum og lýstu ljósmæður ýmsum áhyggjum af þróuninni í samtali við mbl.is. Meðal þessara áhyggja er hvort brotið sé á rétti barna til heilbrigðisþjónustu þegar þessi leið er farin. Auk þess sem upp komu spurningar um hver bæri ábyrgðina ef upp kæmu vandamál í fæðingu sem bregðast hefði mátt við. 

Berglind tekur að einhverju leiti undir þessar áhyggjur, en segir á sama tíma mikilvægt að skoða hvers vegna konur velji að fara þessa leið í stað þess að velja að njóta liðsinnis fagfólks. 

Í því samhengi vitnar hún í doktorsrannsókn sína þar sem hún skoðaði sjálfræði kvenna um val á fæðingarstað og bar saman útkomu fyrirfram ákveðinna heimafæðinga og sjúkrahúsfæðinga á Íslandi. Hún rifjar upp að á þeim tíma hafi viðfangsefnið verið mun umdeildara en það er í dag. 

„Þetta var heitt umræðuefni og konur sem völdu að fara þá leið á sínum tíma, þegar heimafæðingar voru að aukast í upphafi aldarinnar, þær fóru stundum leynt með þessa ákvörðun, þorðu ekki að ræða hana, og á þessum tíma voru engin fæðingarheimili í rekstri,“ segir Berglind og útskýrir að viðhorfin hafi mikið breyst enda búið að undirbyggja að um sé að ræða öruggan valkost fyrir hraustar konur. 

„Þetta er ekki eins umdeilt og orðin viðtekinn valkostur í kerfinu, en þá erum við bara komin að næsta máli á dagskrá getum við sagt,“ segir hún og á við að nú þurfi að horfast í augu við vaxandi vinsældir fæðinga án aðkomu fagfólks og hvers vegna konur velji að fara þá leið.

Konum leiðbeint eftir bestu þekkingu ljósmæðra hverju sinni 

„Við í heilbrigðiskerfinu leitumst alltaf við að vinna eftir ákveðnum viðmiðum um gagnreynda þekkingu. Allur okkar rammi utan um störfin miðast við að safna saman bestu mögulegri þekkingu hverju sinni og skapa verklag sem við getum stuðst við þegar við erum að sinna fólki.“

Þetta verklag segir Berglind þó einungis eiga að vera leiðbeinandi fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Sem dæmi nefnir hún að þegar konu sé leiðbeint um fæðingarstað þá sé það gert eftir bestu þekkingu ljósmæðra, byggt á gögnum sem safnað hefur verið saman þess efnis. Þessar ráðleggingar til kvennanna miðist þannig við það sem ljósmæður telja að muni leiða til bestu úkomu fyrir móður og barn hverju sinni. 

„Við eigum að geta einstaklingsmiðað þjónustuna og lagað hana að þörfum hvers og eins. Það er prinsippið, en í raun er það algjörlega óafgreitt mál hvað það þýðir ef við gerum hlutina öðruvísi en þessar leiðbeiningar segja til um,“ segir Berglind og bætir við: 

„Þar í rauninni stendur hnífurinn í kúnni, að við erum oft, hvort sem við erum á sjúkrahúsum eða í heimafæðingum, þá erum við fagfólkið stundum að ráðleggja konum eitthvað sem þær eru ekki sammála eða sáttar við. Þær vilja gera hlutina á annan hátt, leggja sín lóð öðruvísi á vogaskálarnar og komast að öðrum niðurstöðum í sínu áhættumati heldur en við gerum.“

Bundnar af viðmiðum heilbrigðiskerfisins

Í tilfellum sem þessum skapast ákveðin togstreita, að sögn Berglindar, sem verður til þess að konur geti upplifað að ljósmæður séu ekki raunverulegir málsvarar þeirra. Því segir hún mikilvægt að ljósmæður séu frjálsar að því að veita konu alla þá þjónustu sem hún mögulega kærir sig um að þiggja, sama hver þjónustan er og á hvað hátt hún er veitt. 

„Það var ofboðslega sárt að heyra þessu fyrst varpað fram, að við gætum ekki verið raunverulegir málsvarar kvenna því við værum bundnar af þeim viðmiðum sem heilbrigðiskerfið setur okkur um störfin okkar. Vegna þess að ljósmæður vilja að þjónustan  sé miðuð að þörfum konunnar og að hún stýrist af þörfum og vilja konunnar. Það er því sárt að heyra að okkur sé ekki að takast það,“ segir Berglind og bætir við:

„Við verðum samt að viðurkenna að þetta er alveg satt á meðan okkar lagalega staða er ennþá svolítið óljós.“

Berglind segir hægt að rökstyðja það bæði út frá lögum um heilbrigðisstarfsmenn og lögum um réttindi sjúklinga að í raun beri ljósmæður ábyrgð á því að fylgja óskum kvenna. Hún segir það þó hvergi sett fram með skýrum hætti, þar af leiðandi sé staða ljósmæðra mjög óljós og skiljanlegt að það skapist togstreita þegar konur upplifa að ljósmæður séu ekki frjálsar að því að fylgja þeim. 

Margar eiga slæma fæðingareynslu 

Berst talið þá að því hvers vegna konur velji að fara þá leið að fæða án aðkomu fagfólks. Berglind vitnar í erlendar rannsóknir og segir niðurstöður þeirra sýna að margar þeirra kvenna sem velji að fara þessa leið hafi upplifað slæma fyrri fæðingarreynslu. 

„Þær hafa upplifað að völdin hafi verið tekin af þeim og að þær hafi ekki verið við stjórnvölin. Það hafi verið teknar ákvarðanir um inngrip eða flutning sem þær voru ekki sáttar við og þær sitja eftir með áföll eftir fæðinguna sína og geta ekki hugsað sér að þiggja þjónustu sem getur tekið af þeim völdin aftur,“ segir Berglind og bætir við: 

„Þarna verðum við að finna lausnir til að fyrirbyggja að það skapist þessi togstreita.“

Eins og fram kemur er um að ræða niðurstöður erlendra rannsókna en Berglind segir unnið að íslenskri rannsókn og er niðurstaða hennar að vætna í lok maí. 

Konur vilja ekki missa stjórnina á eigin lífi 

„Grunnvandamálið er í rauninni að konur velja þessa leið vilja ekki missa stjórnina í eigin lífi og ekki afsala sér ábyrgð og völdum til heilbrigðiskerfisins og þá er valdboð ekki að fara að leiða til þess að konur vilji frekar vinna með okkur, heldur þvert á móti,“ segir Berglind spurð hvaða leiðir hún sjái færar til að auka aftur traust þessara kvenna til ljósmæðra.  

Það sé að sjálfsögðu mikilvægt að fundnar verði lausnir á praktískum þáttum, til að mynda varðandi skráningar þessara barna inn í kerfið og hvernig þjónustu konur vilja mögulega þiggja á meðgöngu og eftir fæðingu, en í því samhengi segir hún mikilvægt að virðing fyrir konunni og hennar sjálfsákvörðunarrétti sé ákvallt í forgrunni. 

„Ef við ætlum að nálgast þetta viðfangsefni með valdboði þá er það bara að fara að gera hlutina verri. Ljósmæður, fæðingarlæknar og aðrir í heilrigðiskerfinu eiga ekki að vera ein fylking og konurnar önnur,“ segir Berglind og bætir við: 

„Við erum öll í þessu saman. Við erum að sinna þessum störfum til að geta verið til hjálpar og látið gott af okkur leiða fyrir konurnar, ef þær vilja þiggja það sem við erum að bjóða. Ef við ljósmæður erum trúar okkar fagi þá viljum við að sjálfsögðu meina að okkar viðvera geri gagn frekar en hitt, en við verðum að vera meðvitaðar um að hún gerir það ekki nema að við séum frjálsar að því að veita þjónustuna okkar á forsendum konunnar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert