Umræðan á villigötum: Flýtimeðferð leysi ekki vandann

LFÍ tekur undir þau sjónarmið að veiting starfsleyfa mætti ganga …
LFÍ tekur undir þau sjónarmið að veiting starfsleyfa mætti ganga hraðar fyrir sig. Ljósmynd/Colourbox

Umræðan um lokun apóteka er á villigötum, að mati Lyfjafræðingafélagsins. Nýútskrifaðir lyfjafræðingar fá líklega ekki starfsleyfi útgefin fyrr en í júlí en skyndilausn eins og flýtimeðferð starfsleyfa leysi ekki mönnunarvanda í apótekum landsins.

Útlit er fyrir að nýút­skrifaðir lyfjafræðingar fái ekki útgefin starfsleyfi fyrr en í júlí. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, lýsti áhyggjum sínum af því og hélt því fram í viðtali við Morgunblaðið að það gæti leitt til þess að loka þurfi sumum apótekum vegna mönnunarvanda.

Það er ekki rétt, að mati Lyfjafræðingafélags Íslands (LFÍ). „Að fullyrða að seinkun á veitingu starfsleyfa um mánuð valdi lokun apóteka á landsbyggðinni er aftur á móti umræða sem er á villigötum,“ segir í yfirlýsingu félagsins, sem tekur aftur á móti undir þau sjónarmið að veiting starfsleyfa mætti ganga hraðar fyrir sig.

Starfsumhverfið erfitt

Á Íslandi er fjöldi apóteka miðað við höfðatölu með hæsta móti miðað við nágrannalönd okkar, segir LFÍ. Apótek landsins eru 74 talsins, 49 á höfuðborgarsvæðinu og 25 á landsbyggðinni. Á Íslandi eru 639 lyfjafræðingar undir 67 ára með starfsleyfi og stefnir í að þeim fjölgi um 25 eftir útskrift í sumar.

„Framboð lyfjafræðinga ætti því að teljast feikinóg fyrir apóteksfjölda landsins. En rétt eins og fjöldi apóteka fylgir lögmálum markaðarins er þörf fyrir lyfjafræðinga víðar í samfélaginu og því velur stór hluti þeirra sér annan starfsvettvang,“ skrifar félagið.

LFÍ segir að lyfjafræðingum í apótekum sé þunnt smurt yfir landið, sem bitni á starfsumhverfi þeirra. Og þegar starfsumhverfið versnar verða önnur störf eftirsóknarverðari í augum lyfjafræðinga.

„Til ráða er annaðhvort að fækka apótekum eða fjölga lyfjafræðingum. Þriðji möguleikinn væri að bæta kjör lyfjafræðinga í apótekum. Það myndi laða að fleiri lyfjafræðinga til starfa og samtímis auka rekstrarkostnað sem alla jafna ætti að leiða til fækkunar apóteka.“

Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir formaður LFÍ.
Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir formaður LFÍ. Ljósmynd/Lyfjafræðingafélag Íslands

Með lengri vinnuskyldum

Lyfjafræðingar í apótekum hafa einna lengstu vinnuskyldu hér á landi samkvæmt kjarasamningum, að sögn LFÍ.

„Í mörgum apótekum er aðeins einn lyfjafræðingur sem stendur vaktina og kemst oft á tíðum hvorki í mat né kaffi. Lögum samkvæmt skulu apótek vera opin a.m.k. milli 9 og 18,“ segir í tilkynningunni þar sem einnig er bent á að sum apótek séu opin um helgar, kvöld og jafnvel á næturnar.

Þá mætti betur nýta sértæka þekkingu lyfjafræðinga. Lyfjafræðingar erlendis sinni víðtækara hlutverki í heilbrigðiskerfinu en hér á landi.

„Af ofangreindu má leiða að flýtimeðferð á veitingu starfsleyfa fyrir nýútskrifaðra lyfjafræðinga leysir ekki vandann við að manna apótek landsins. Það sé skyndilausn á dýpra vandamáli. Hið raunverulega samtal þarf að snúast um halda lyfjafræðingum í starfi með því að gera betur við stéttina. Aðeins með því að takast á við þessar grundvallar áskoranir getum við sannarlega tryggt bætta lyfjaþjónustu sem væri viðskiptavinum, lyfjafræðingum og heilbrigðiskerfinu til hagsbóta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert