Eftir stóð sálin og hreinleikinn

„Hann var til í þetta en gerði mér strax grein …
„Hann var til í þetta en gerði mér strax grein fyrir sínum takmörkunum. Við fórum alveg að mörkunum, og hann spurði mig í gríni eitt sinn hvort ég ætlaði að drepa sig,“ segir Baltarsar um Egil Ólafsson. mbl.is/Ásdís

Nýjasta kvikmynd Baltasars, Snerting, verður frumsýnd hér á landi 29. maí. Sagan er hugarfóstur Ólafs Jóhanns Ólafssonar en saman unnu þeir Baltasar að kvikmyndahandritinu eftir samnefndri bók. Aðalhlutverk eru meðal annars í höndum Egils Ólafssonar, en hann glímir nú við sjúkdóminn parkinson. Aðspurður segir Baltasar hann ekki hafa verið með Egil í huga í upphafi.

Snyrtilegur og rómantískur

„Aldrei kom nafn Egils upp. Hann lék hjá mér í Ófærð 3 og upp úr því vissi ég að hann væri að glíma við veikindi, þótt það hafi ekki verið opinbert þá,“ segir Baltasar.

„En mér fannst það ekki vera ástæða til að skoða hann ekki. Það er mér líka persónulegt, því pabbi minn er kominn með alzheimer og er illa farinn. Hann hefur verið að glíma við sjúkdóminn frá 2016 og árið 2020 fór þetta að verða alvarlegt. Það var eitthvað við Egil sem minnti mig á pabba. Þegar maður les bók setur maður í karakterana sína eigin reynslu. Ég sá pabba fyrir mér; hann er alltaf snyrtilegur og rómantískur og konum finnst hann sætur eldri karl,“ segir hann og brosir.

Egill Ólafsson leikur eldri mann í leit að svörum í …
Egill Ólafsson leikur eldri mann í leit að svörum í Snertingu. Ljósmynd/Lilja Jóns

„Og þá kom Egill; þessi fallegi eldri maður, fágaður maður sem lætur ekki mikið fyrir sér fara. Þarna skildi ég karakterinn. Mig langaði að áhorfandinn myndi verða „skotinn“ í honum. Mér fannst svo mikilvægt að hann væri rómantískur og að áhorfandann myndi langa til að hann fengi að ljúka þessu máli sínu. Og þrátt fyrir að Egill sé kominn á efri ár, þá hefur hann þetta.“

Og aldrei kvartaði Egill

„Orkan hans hefur breyst svo mikið, sem gerist við veikindi. Ég man einmitt að eitt sinn fór ég í prufu með hitavellu og hef aldrei leikið betur, vegna þess að maður hefur ekki orku fyrir neitt annað en það sem akkúrat skiptir máli. Egill var svolítill hani í gamla daga, og ég sjálfsagt líka. Svolítill sperringur. En það var allt farið og eftir stóð sálin og hreinleikinn. Það er það sem er svo fallegt og þess vegna sá ég Egil fyrir mér í hlutverkið. Ég hefði aldrei séð gamla Egil fyrir mér. Það er eitthvað fallegt við það að geta jafnvel nýtt sér erfiðleika til að skapa listaverk. Listamenn eru hvort sem er alltaf að nýta sér sína reynslu, af veikindum eða öðru, í list sína og ég vissi að Egill myndi leggja þetta inn í myndina,“ segir Baltasar og nefnir að karakterinn sem Egill leikur, Kristófer, sé að glíma við alzheimer.

Baltasar segist hafa þurft að haga tökum eftir getu Egils, því ekki gæti hann látið mann með parkinson leika tólf tíma á dag.

„Hann var til í þetta en gerði mér strax grein fyrir sínum takmörkunum. Við fórum alveg að mörkunum, og hann spurði mig í gríni eitt sinn hvort ég ætlaði að drepa sig,“ segir hann og brosir.

Ólafur Jóhann, Egill og Baltasar á góðri stundu í London.
Ólafur Jóhann, Egill og Baltasar á góðri stundu í London.

Baltasar hrósar Agli í hástert fyrir leik sinn og hvað hann hafi staðið sig vel, þrátt fyrir sjúkdóminn sem hann segir að fylgi gjarnan minnistap. Ekki var að merkja á Agli að slíkt væri að hrjá hann í tökunum.

„Eitt sinn þegar við vorum í Japan þá lék hann senu á þremur tungumálum; íslensku, ensku og japönsku, sem Egill auðvitað kann ekki og þurfti að læra utanbókar. Ekki nóg með það, heldur þurfti hann að borða með prjónum á sama tíma. Og eins og þetta væri ekki nógu erfitt, þá þurfti hann að borða með vinstri hendi, því Pálmi Kormákur, sem leikur hann ungan, er örvhentur. Pálmi þarf svo mikið að skera mat í myndinni að við vorum ekki búin að sjá þetta fyrir. En þarna fer Egill létt með að tala á þremur tungumálum og borða með prjónum í vinstri hendi á sama tíma! Hvernig er hægt að gera leikara með parkinson þetta?“ segir Baltasar og hlær.

„Og aldrei kvartaði Egill!“

Egill segist ekki hafa veirð viss hvort hann treysti sér í þetta, en segir Baltasar hafa sannfært sig um að þetta myndi takast.

Undir niðri blunduðu samt sem áður efasemdir allan tímann. Ég fann til ábyrgðar, en þegar upp er staðið gengur þetta bara út á það að gera sitt besta, meira er ekki hægt að bjóða upp á. Ég verð þó að viðurkenna að það fylgdi því ákveðinn feginleiki þegar tökurímabilinu lauk og minn þáttur var kominn á ræmur. Auðvitað voru þetta oft langir tökudagar sem tóku á, en ég held að við Balti eigum það sammerkt að vilja gera betur en vel og vorum því áfram um að hætta ekki fyrr en allir voru sáttir. Nú er ég bara spenntur að sjá afraksturinn. 

Ítarlegt viðtal er við Baltasar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert