Eldur braust út í braggabyggingu á Egilsstöðum rétt eftir klukkan 11 í morgun. Slökkvilið er á staðnum.
Ingvar Ríkharðsson varðstjóri segir í samtali við mbl.is að slökkvistarf á vettvangi gangi vel. Hann býst við því að unnið verði á svæðinu eitthvað áfram, en búið er að slökkva eldinn að mestu.
„Við erum búnir að vera rífa með tækjum. Þetta er gamall braggi og það er bara allt farið,“ segir Ingvar.
Eldurinn hefur ekki borist í nærliggjandi mannvirki. Ingvar segir að tveir eignarhlutar séu í bragganum. Hinn hluturinn sé nú fullur af reyk, en enginn eldur sé þar.
Upptök eldsins eru ókunn en sex til átta slökkviliðsmenn eru á svæðinu.
Austurfrétt greindi fyrst frá brunanum.
Þar kemur fram að slökkvilið Múlaþings hafi verið kallað út klukkan 11:20 eftir að tilkynning barst um eld í braggabyggingu á mótum gatnanna Miðáss og Reykáss. Húsnæðið hafi hýst starfsemi fjarskiptafyrirtækisins Austurljóss.
Þá segir að slökkviliðið hafi lagt áherslu á að sprauta utan á veggi hússins í fyrstu. Reykkafarar hafi farið inn í bygginguna eftir að eldur braust upp úr þakinu um hádegisbil.