Farið hefur verið fram á frestun framkvæmdar í máli einnar af þeim þremur konum sem vísa á úr landi til Nígeríu á næstu dögum. Er það mat læknis að brottvísun muni stefna lífi konunnar í alvarlega hættu.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögmaður konunnar sendi mbl.is.
Brottvísanir kvennanna hafa verið harðlegar gagnrýndar. Talskona Stígamóta hefur sagt íslensk stjórnvöld ekki fylgja alþjóðaskuldbindingum í málsmeðferð kvennanna, sem allar séu þolendur mansals.
Í tilkynningunni segir að heilsufar konunnar, sem heitir Blessing Uzoma Newton, hafi farið ört versnandi. Með tilkynningunni sendi lögmaðurinn læknisvottorð hennar.
„Heilsufar konunnar hefur farið ört versnandi og er það mat læknis á Landspítala Íslands að brottvísun muni stefna lífi sjúklingsins í alvarlega hættu komi hún til framkvæmdar á núverandi tímamarki og óforsvaranlegt sé með öllu út frá læknisfræðilegu sjónarmiði að framkvæma brottvísun við þær aðstæður sem til staðar eru í dag,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að engin svör hafi borist frá stjórnvöldum þrátt fyrir ítrekun.
„Hér er líf viðkomandi aðila í hættu og nauðsynlegt að brottvísun verði frestað án tafar. Beðið er viðbragða stjórnvalda.“