Átaksverkefnið Taktu stökkið farið af stað

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur farið af stað með átaksverkefnið Taktu stökkið. Markmið verkefnisins er að fjölga háskólanemum, þá ekki síst strákum, en rannsóknir hafa sýnt að umtalsvert færri karlmenn útskrifast úr háskólum hér á landi en á öðrum Norðurlöndum.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu er haft eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að miklir hagsmunir séu í húfi til að mynda fyrir samfélagið, atvinnulífið og unga fólkið í landinu. Haft er eftir Áslaugu Örnu að Taktu stökkið sé framhald af átaki sem ráðist var í síðastliðið vor og bar góðan árangur, en þá fjölgaði umsóknum karla í háskóla um 13% á milli ára.

Ekki bíða, taktu stökkið

Fram kemur að lykilskilaboð átaksins í ár séu að fólk bíði ekki með háskólanám heldur taki stökkið og skrái sig í háskóla.

Átakið mun birtast víðs vegar í samfélaginu svo sem á samfélagsmiðlum, í sjónvarpi og í bíóhúsum þar sem mun fylgja hvatning til ungs fólks og ýmsum spurningum svarað. Einnig verður unnið hlaðvarpsefni með viðtölum við fólk úr ólíkum áttum sem deilir reynslu sinni á að hefja nám.

Áhugasamir geta kynnt sér allar námsleiðir í háskólum landsins á skipulegan hátt til að einfalda sér að velja nám á háskólanám.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka