Fjölmiðlamaðurinn Freyr Rögnvaldsson hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi Eflingar stéttarfélags. Hann hefur síðustu 17 ár unnið sem blaðamaður á ýmsum fjölmiðlum, meðal annars Heimildinni, Stundinni, DV, Eyjunni, Bændablaðinu og á 24 stundum.
Auk þess hefur hann sinnt kynningarstörfum og almannatengslum, bæði sem sjálfstætt starfandi og fyrir Bændasamtökin og sem upplýsingafulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir Alþingiskosningarnar árið 2017.
Greint er frá ráðningunni í tilkynningu, en þar er meðal annars haft eftir Perlu Ösp Ásgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Eflingar, að ráðning Freys sé liður í eflingu samskipta og miðlunar upplýsinga af félagslegu og faglegu starfi Eflingar.
Freyr hlaut Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands árið 2018 fyrir rannsóknarblaðamennsku þegar hann rannsakaði og greindi eignarhald auðmanna á íslenskum bújörðum.
Freyr er giftur Snærós Sindradóttur, listfræðingi og fjölmiðlakonu, og eiga þau fjögur börn.