Kappræður setja strik í reikninginn

Frambjóðendur forsetakosninganna biðu þess að koma fram í beinni útsendingu …
Frambjóðendur forsetakosninganna biðu þess að koma fram í beinni útsendingu á föstudagskvöld fyrir rúmri viku. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þegar aðeins eru tæpar þrjár vikur í forsetakjör blasir við að kjósendur eru engan veginn búnir að gera upp hug sinn til forsetaframbjóðenda og fylgið enn á mikilli ferð.

Niðurstöður úr nýjustu skoðanakönnun Prósents bera það með sér, en ekki síður þegar horft er til fylgisþróunar síðustu viku.

Óvænt forysta Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra, sem síðustu tvær vikur var komin fast að 30% fylgi, virðist þannig engan veginn jafntrygg og margir virtust ætla eftir fádæmamikla og hraða fylgisaukningu upp úr nánast engu.

Aðrir efstu frambjóðendur „eiga“ ekki heldur það fylgi, sem þeir hafa notið síðustu vikur, því þeir döluðu allir eitthvað, en á hinn bóginn náði Halla Tómasdóttir forstjóri að tvöfalda fylgi sitt og nær helmingi betur, þegar hún fór úr 5,1% upp í 12,5%.

Ekki sú eina sem bætti við sig fylgi

Freistandi er að álykta að það megi rekja til kappræðna allra frambjóðenda í sjónvarpssal fyrra föstudagskvöld, þar sem kjósendur fengu tækifæri til þess að sjá hvernig forsetaefnin öll tóku sig út og svöruðu fyrir sig.

Halla Tómasdóttir var enda ekki eini frambjóðandinn með hóflegt fylgi til þess að bæta við sig í þessari könnun Prósents. Arnar Þór Jónsson lögmaður fór í henni upp í 5,7% en aðrir frambjóðendur samtals í 3,6%. Þar á meðal nýliðinn Viktor Traustason hagfræðingur, sem fór í 1,5% og skaut þannig öðrum en Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu, sem lækkaði í 1,8%, ref fyrir rass.

Upphaflega var nefnt að Höllu Hrund væri styrkur í að vera nánast óþekkt, hún væri þá fersk og laus við fortíð, sem þvælst gæti fyrir henni. Síðan hafa raunar ýmsar fréttir birst, sem vakið hafa efasemdir um það, en að líkindum voru það þó kappræður allra forsetaframbjóðenda í sjónvarpssal, sem meiru réðu.

Framganga Höllu Hrundar þótti fremur tilþrifalítil, hún jafnvel óörugg og óljós í tali (þótt það hafi ekki verið einsdæmi í þættinum!), en var örugglega ekki til þess að styrkja hana.

Forsetaframbjóðendur svöruðu spurningum í Efstaleiti föstudaginn 3. maí.
Forsetaframbjóðendur svöruðu spurningum í Efstaleiti föstudaginn 3. maí. mbl.is/Arnþór Birkisson

Virtist verða fyrir nokkru höggi

Raunar má vel halda því fram að hinir efstu frambjóðendurnir þrír hafi ekki heldur átt sitt besta kvöld í kappræðunum. Af öðrum könnunum að dæma virtist það hins vegar ekki hafa skaðað þá, fylgi þeirra haggaðist varla, en Halla Hrund virtist hins vegar verða fyrir nokkru höggi.

Aftur á móti átti nafna hennar Halla Tómasdóttir ágætar kappræður, kom skýrt og sköruglega fyrir, án þess að lagður sé dómur á hvort orðin hafi verið innihaldsríkari en hjá öðrum frambjóðendum.

Það virðist hafa hrifið til þess að drjúgur hluti kjósenda sá að hún ætti ekki síður upp á dekk en hin fjögur.

Nánar er fjallað um fylgi forsetaframbjóðenda í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert