Komu á stórum gaffallyftara

Kristinn Kristmundsson, betur þekktur sem Kiddi Vídeófluga á öldinni sem …
Kristinn Kristmundsson, betur þekktur sem Kiddi Vídeófluga á öldinni sem leið, er með starfsemi við hliðina á aðstöðu fjarskiptafyrirtækisins Austurljóss í bragganum sem stórskemmdist í bruna á Egilsstöðum í gær. Samsett mynd/Aðsend/Stefán Bogi Sveinsson

„Ég veit ekkert hvað gerðist en milliveggurinn á milli okkar, sem ég lagði mikla vinnu í, skemmdist,“ segir Kristinn Kristmundsson í samtali við mbl.is um brunann á Egilsstöðum í gær, en þar kviknaði í bragga sem meðal annars hefur hýst starfsemi fyrirtækisins Austurljóss sem varð fyrir miklu tjóni þegar ýmis útbúnaður tengdur ljósleiðarastarfsemi þess fór forgörðum.

„Þeir [slökkviliðið] sögðu að þetta væri með allra besta frágangi sem þeir hefðu séð, það fór hvorki vatn né eldur á milli, bara reykur,“ segir Kristinn sem er húsasmiður á eftirlaunum þrátt fyrir að vera ef til vill betur þekktur fyrir starfsemi sína tengda myndbandaleigunni Vídeóflugunni á öldinni sem leið enda varð hann af henni landskunnur sem Kiddi Vídeófluga.

Komu á stórum lyftara

„Þegar ég gerði mér aðstöðu þarna gerði ég tvöfaldan vegg yfir vegginn sem var fyrir og hann hélt svona vel. Svo hugsuðu þeir bara um að bjarga mér, komu þarna á stórum gaffallyftara fyrst og svo beindu þeir öllum slöngunum á endann minn en þó þeim megin sem sneri að [Austurljósi],“ útskýrir Kristinn.

Hann ræstir núna hjá N1 auk þess að reka þá starfsemi sem hann stundar í bragganum sem brann. „Ég er aðeins að vinna þótt ég sé orðinn sjötugur,“ segir hann en þar hefur hann verið í fimmtán ár og ætlar sér að halda áfram þátttöku sinni á vinnumarkaði að eigin sögn.

Kristinn ítrekar að hann hafi ekki hugmynd um upptök brunans eða að öðru leyti hvað gerðist þegar Austurljós varð fyrir stórtjóni í eldsvoðanum í bragganum á Egilsstöðum í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka