Félag héraðsskjalavarða á Íslandi mótmælir harðlega ákvörðun Kópavogsbæjar að leggja niður starf héraðsskjalavarðar við Héraðsskjalasafn Kópavogs.
„Nú sem aldrei fyrr er full þörf á að bera virðingu fyrir fagþekkingu skjalavarða við Héraðsskjalasafns Kópavogs, reynslu þeirra og yfirsýn yfir safnkostinn. Að leggja niður störf þeirra og bjóða þeim ný störf án faglegrar yfirstjórnar og á verulega skertum kjörum, sýnir hroka og skeytingarleysi gagnvart varðveislu skjala sem sveitarfélögin bera lögum samkvæmt ábyrgð á.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi héraðsskjalavarða í kjölfar ákvörðun Kópavogsbæjar að leggja niður starf héraðsskjalavarðar.
Nýlega greindi mbl.is frá því að Héraðsskjalasafn Kópavogs yrði lagt niður og Kópavogsbær færi í samvinnu við Þjóðskjalasafn Íslands um að taka við safnkostinum.
Félagið skorar á Kópavogsbæ að draga ákvarðanir sínar um niðurlagningu starfs héraðsskjalavarðar og lokun Héraðsskjalasafns Kópavogs til baka.