Ekkert er enn ljóst um eldsupptök í bragga á Egilsstöðum í gær þar sem fjarskiptafyrirtækið Austurljós hefur verið með starfsemi sína. Þetta segir lögreglan á Egilsstöðum í samtali við mbl.is.
Eldurinn kom upp um ellefuleytið í gærmorgun og vann slökkvilið að því að rífa braggann niður eftir að niðurlögum eldsins hafði verið ráðið.
Framkvæmdastjóri Austurljóss, Stefán Sigurðsson, ræddi við mbl.is í gær og kvaðst eiga von á því að tjón fyrirtækisins væri umtalsvert en öll verkfæri sem tilheyrðu ljósleiðarastarfsemi Austurljóss voru í bragganum sem notaður var sem geymsluhúsnæði og verkstæði fyrirtækisins.