Hin heilaga tala í lífeyrisréttindum fólks hefur gjarnan verið 67 ára aldur. Vissulega fylgja þeim aldri ákveðin réttindi þegar kemur að ellilífeyri. Breytingar á vinnumarkaði og samfélagsgerð hafa leitt til breytinga og fjölgað valkostum lífeyrisþega. Flest launafólk öðlast rétt til að hefja töku lífeyris þegar sextíu ára aldri er náð.
Björn Berg Gunnarsson er sjálfstæður fjármálaráðgjafi sem heldur námskeið fyrir almenning um Lífeyrismál og starfslok. Hann er gestur Dagmála í dag og ræðir þar lífeyrismál í sinni víðustu mynd. Eitt af því sem hann fer yfir er svokallaður snemmtekinn lífeyrir, sem eins og áður segir virkjast hjá flestum um sextugt. Þeir sem hefja töku lífeyris svo snemma fyrirgera ákveðnum réttindum. Örorkutrygging fellur niður og mánaðarlega greiðslur verða lægri.
Vert er að hafa í huga að það getur líka leitt til skerts maka– og barnalífeyris falli lífeyrisþegi frá, þar sem slíka greiðslur taka mið af lífeyrisgreiðslum. Svo er það hin hliðin á peningnum, segir Björn Berg. Sífellt fleiri vitna til hugtaksins, „á meðan að heilsan leyfir.“
Erfitt er að alhæfa þegar kemur lífeyrismálum og rétt er að leita sér upplýsinga, hvort sem það er hjá lífeyrissjóði viðkomandi eða lesa sér til. Björn Berg talar um lífeyrisréttindi og lífeyrismál sem hlaðborð. Hann segir að alltaf séu einhverjir sem fari bara beint í súpuna og brauðið og borði sig sadda þar en sleppi öllum fínu réttunum sem eru í boði, ef grannt er skoðað.
Hann fer yfir hvað hægt er að gera og hvaða réttindi eru til staðar og með hvaða hætti þau virkjast. Á að virkja rétt sinn til töku ellilífeyris hjá Tryggingastofnun við 67 ára aldur? Ekki endilega og í sumum tilvikum alls ekki. Rétt geti verið að bíða þar til þörfin er til staðar. Sá réttur er nefnilega bara virkjaður einu sinni og er þannig til framtíðar.
Áhugavert samtal um réttindi sem skipta okkur öll máli, en fæstir fá áhuga á fyrr en langt er liðið á starfsævina. Þeir sem huga að þessum réttindum snemma á lífsleiðinni geta búið sér til það sem kallast áhyggjulaust ævikvöld.
Með fréttinni fylgir sá hluti viðtalsins þar sem Björn Berg fer yfir kosti og galla þess að hefja lífeyristöku strax og aldur leyfir. En áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í fullri lengd.