Starfsmaður Sjúkratrygginga Íslands er grunaður um fjárdrátt í störfum sínum innan stofnunarinnar.
Þetta staðfestir forstjóri SÍ, Sigurður H. Helgason, í samtali við mbl.is. Hann segir SÍ hafa kært málið til lögreglu og að málið sé nú komið á borð héraðssaksóknara.
Spurður um stöðu starfsmannsins og hvort viðkomandi hafi verið vikið úr starfi, kveðst Sigurður ekki getað tjáð sig nánar um starfsmannamál né um umfang og málsatvik vegna rannsóknarhagsmuna.
„Þetta er viðkvæmt mál og við getum voðalega lítið tjáð okkur um þetta,“ segir Sigurður.
Hann segir kæruna hafa verið senda fyrir skömmu síðan og því ekki hafa frekari upplýsingar um stöðu rannsóknarinnar að svo stöddu.
Spurður hversu lengi grunur hafi legið á um meintan fjárdrátt kveðst Sigurður enn og aftur ekki getað tjáð sig um málsatvik.
„En ef við hefðum vitað af þessu lengi þá værum við búin að senda kæruna fyrir löngu síðan. Þannig þú getur ályktað út frá því.“