Þórhildur Sunna fundar með Julian Assange

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata og varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, er nú í Lundúnum vegna skýrslugerðar Evrópuráðsins um varðhaldið yfir Julian Assange.

Í tilkynningu frá Pírötum segir að hlutverk Þórhildar sé að skrifa skýrslu þar sem mat er lagt á hvort Assange sé í raun pólitískur fangi, og eigi því að sleppa án tafar, og sömuleiðis kælandi áhrif sem meðferðin á honum hafi gagnvart tjáningarfrelsi í Evrópu.

Þórhildur mun heimsækja Julian Assange á morgun í Belmarsh-fangelsi, þar sem honum hefur verið haldið án sakfellingar í fimm ár.

Haldið í fimm ár

Assange hef­ur verið í fang­elsi í Bretlandi frá ár­inu 2019 á sama tíma og Banda­rík­in hafa reynt að fá hann fram­seld­an.

Bandaríkin vilja að Bretland framselji hann til þess að geta réttað yfir honum fyrir brot á njósnalögunum þar í landi. Assange heldur því fram að þar með sé verið að vega að fjölmiðlafrelsi og vernd uppljóstrara.

Assange er ákærður fyr­ir að hafa lekið trúnaðargögn­um árið 2010 um stríðin í Írak og Af­gan­ist­an. Yrði hann sak­felld­ur í öll­um ákæru­liðum gæti hann átt yfir höfði sér 175 ára fang­els­is­dóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert