Stefán Þór Björnsson, fjármálastjóri Solid Clouds, segir Norðurlöndin vera algjörar stórstjörnur þegar kemur að tölvuleikjum og að tilnefning Solid Clouds, fyrir íslenska tölvuleikinn Starborne Frontiers, til Norrænu tölvuleikjaverðlaunanna sé mikil viðurkenning fyrir fyrirtækið og íslenska tölvuleiki.
Starborne Frontiers frá Solid Clouds hlaut tilnefningu til Norrænu tölvuleikjaverðlaunanna sem besti tölvuleikur fyrir snjalltæki á árinu 2024.
Í tilkynningu kemur fram að fleiri hundruð leikir voru tilnefndir en aðeins fimm þeirra komust í úrslit, þar á meðal Starborne Frontiers.
Það er fremur óalgengt að íslenskt fyrirtæki sé tilnefnt til svona verðlauna en Stefán segir í samtali við mbl.is að iðnaðurinn á Íslandi sé að stækka.
Hann segir að í hvert sinn sem íslenskt tölvuleikjafyrirtæki stækkar þá styðji það við vöxt hinna.
Norræna tölvuleikjastofnunin veitir verðlaunin en að henni standa tölvuleikjasambönd Norðurlanda, þar á meðal Samtök íslenskra leikjafyrirtækja.
Verðlaunin verða veitt 23. maí í Malmö á Norrænu leikjaráðstefnunni og munu einn eða tveir fulltrúar Solid Clouds fara á ráðstefnuna.
„Þessi tilnefning gefur Solid Clouds teyminu byr í seglin og við bíðum spennt eftir niðurstöðu dómnefndar,“ segir Stefán Gunnarsson, forstjóri Solid Clouds í tilkynningunni.