Vill raunhæfari aðgerðir til að fækka kvörtunarmálum

Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Samsett mynd

Umboðsmaður Alþingis kallar eftir því að heilbrigðisráðuneytið grípi til markvissra aðgerða til að fækka kvörtunarmálum sem bíða afgreiðslu hjá landlækni. Þetta kemur fram í áliti Umboðsmanns.

Umboðsmanni Alþingis barst kvörtun árið 2022 vegna tafar á afgreiðslu máls hjá landlækni. Embætti landlæknis sagði að skýringin væri að vandinn væri almennur og stafaði af miklum málafjölda og skorti á fé til að bæta úr.

Embætti landlæknis segir að málsmeðferðartími í meirihluta kvörtunarmála sé lengri en þeir 12 til 24 mánuðir, eins og tilgreint er á vef embættisins sem algengan tíma rannsóknar.

Heilbrigðisráðherra meðvitaður um vandann 

Þá leitaði umboðsmaður svara frá heilbrigðisráðuneytinu sem sagðist meðvitaður um að málsmeðferðartími kvartana hjá embætti landlæknis væri langur.

Þá segir heilbrigðisráðherra að fjöldi kvartana væri mikill og að málsmeðferð kvartana væri oft þung í vöfum, sérstaklega þegar embættið aflaði umsagnar óháðs sérfræðings.

Heilbrigðisráðherra vísaði í aðgerðir sem hann kveðst hafa ráðist í vegna afgreiðslutíma kvartana hjá landlækni.

Að mati umboðsmanns var ekki séð að raunhæfar og áhrifaríkar aðgerðir hefðu komið til álita hjá heilbrigðisráðherra og kallar umboðsmaður eftir markvissari og raunhæfari aðgerðum til að fækka kvörtunarmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert