Bygging nýs skóla gæti kostað rúma 9 milljarða

Einn valmöguleikinn er að skólinn verði þar sem bílastæðin eru …
Einn valmöguleikinn er að skólinn verði þar sem bílastæðin eru fyrir utan KSÍ og Laugardalsvöll. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Mat á kostnaði við byggingu nýs gagnfræðiskóla í Laugardalnum í Reykjavík sýnir að framkvæmdin gæti kostað 9,3 milljarða króna. 

Kemur þetta fram í skýrslu frá starfshópi sem vinnur að undirbúningi framkvæmda vegna skóla og frístundastarfs í Laugardalnum og kynnt var skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar. 

Eins og greint var frá á mbl.is í dag er hugmyndin sú að byggja nýjan skóla í Laugardal fyrir unglingastig grunnskóla eða 8., 9. og 10. bekk. Þrír skólar í hverfinu verða þá einungis með börn í 1. - 7. bekk og hætta þá kennslu á unglingastigi ef af verður. Eru það Laug­ar­nesskóli, Lauga­lækj­ar­skóli og Lang­holts­skóli. Nemendur myndu þá koma úr þeim skólum en einnig frá fleiri svæðum í nágrenninu. 

Gæti tekið fimm ár

Málið er til skoðunar í borgarkerfinu en verði þessi leið farin þá gæti framkvæmdin tekið 62 mánuði samkvæmt skýrslunni eða fimm ár. Byggingaframkvæmdin sjálf gæti tekið 30 mánuði en undirbúningurinn 32 mánuði.

Nýbyggingin yrði 8.400 fermetrar en auk skólans væri þar einnig félagsmiðstöð. 

Á þessum tímapunkti virðast þrjá lóðir í Laugardalnum koma til greina. Ein þeirra er norðan við Skautahöllina og við hlið íþróttasvæðis Þróttar. Er hún 9.900 fermetrar. 

Önnur er á horni Suðurlandsbrautar og Engjavegar. Lóðin er 17.980 fermetrar. 

Sú þriðja er vestan við aðalstúku Laugardalsvallar og skrifstofu KSÍ, þar sem nú eru bílastæði. Lóðin er 10.700 fermetrar. 

Hagstofan spáir talsverðri fjölgun 

Í ljósi fólksfjölgunar er ekki útlit fyrir að skólabyggingarnar þrjár í hverfinu geti annað eftirspurn og talið er að dýrt og flókið yrði að stækka byggingarnar. 

Gert er ráð fyrir 11% fjölgun barna á aldrinum 6-15 ára á Íslandi frá 2030 til 2040 samkvæmt spám Hagstofu Íslands. Þessi fjölgun er háð óvissu, þ.e. varðandi það hvort hlutfallið sé svipað í Reykjavík og líka hvernig fjölgunin er milli hverfa í borginni. Gert er ráð fyrir að svæðið í kringum Laugardalinn verði áfram barnmargt hverfi. 

Síðasta haust voru nemendur 726 í Langholtsskóla, 408 í Laugalækjarskóla og 557 í Laugarnesskóla eða samtals 1.691. Einnig myndi nýr skóli sinna nemendum á unglingastigi á nærliggjandi uppbyggingarreitum við Grensásveg, á Orkureit og í Skeifunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert