Einn var fluttur með alvarlega áverka, en þó ekki lífshættulega, eftir umferðarslys á Suðurlandsvegi síðdegis í gær.
Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Ekið var á kyrrstæðan bíl sem lagt hafði verið vel úti í vegkanti en snéri á móti akstursstefnu. Ökumaður kyrrstæða bílsins var fyrir utan bifreiðina þegar bíllinn kastaðist á hann.
Viðkomandi var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur. Sveinn kveðst ekki vita meira um líðan hans að stöddu en segir að áverkarnir hafi verið alvarlegir.