Íhugar að stefna ríkinu vegna brottvísunar Blessing

Lögmaður Blessing segir koma á óvart að hún hafi verið …
Lögmaður Blessing segir koma á óvart að hún hafi verið flutt úr landi þrátt fyrir að læknir segi það kunna að vera lífshættulegt. Samsett mynd/Aðsend/Hari

„Ég var mjög hissa á þessari niðurstöðu,“ segir Helgi Þorsteinsson Silva lögmaður Blessing Uzoma Newton, sem var vísað úr landi í gærkvöldi ásamt þremur öðrum. Hann segir málið neyðarlegt fyrir íslensk stjórnvöld. 

Í samtali við mbl.is kveðst Helgi íhuga málshöfðun gegn íslenska ríkinu fyrir ákvörðun þeirra um að senda Blessing úr landi þrátt fyrir að læknir hafi gefið út vottorð þess efnis að brottvísun gæti reynst Blessing lífshættuleg. 

Var Blessing vísað aftur til Nígeríu í gær ásamt tveimur öðrum konum, þeim Ester og Mary ásamt einum karlmanni. Eru konurnar þrjár allar fórnarlömb mansals. Var fólkinu flogið til Þýskalands seint í gærkvöldi og þaðan til Lagos í Nígeríu í dag.

„Þær ættu bara að vera að lenda í Lagos núna.“

Konurnar fengu allar endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd fyrir um ári síðan en vildu ekki fara af landi brott og voru sviptar þjónustu síðasta sumar í samræmi við nýja útlendingalöggjöf.

ÚTL mátu Blessing ferðafæra á skjön við læknisvottorð

Kveðst Helgi ekki hafa átt von á að Útlendingastofnun myndi vísa Blessing úr landi þar sem þau hafi vísað fram á læknisvottorð um að hún væri ekki ferðafær vegna æxli í kviðarholi sem hafi stækkað ört að undanförnu.

Er það mat læknis að brott­vís­un myndi stefna lífi kon­unn­ar í al­var­lega hættu og að lífsnauðsynlegt sé að hún hafi aðgengi að bráðaþjónustu sérhæfðra kvennadeilda á sjúkrahúsi. Segir Helgi það þó hafa verið mat Útlendingastofnunar að Blessing væri ferðafær og ekki tilefni til að fresta brottvísun hennar. 

Spurður hverju Útlendingastofnun byggi mat sitt á heilsufari Blessing og áhættuþáttum því tengdu, sem trompi læknisfræðilegt mat, kveðst Helgi ekki getað svarað fyrir það enda hafi hann ekki fengið ítarlegar upplýsingar frá ÚTL. Hann hafi nú óskað eftir frekari útskýringum im brottvísunina.

Hann segir Útlendingastofnun í staðinn hafa vísað til þess að ávallt sé læknir um borð í flugum sem þessum ef ske kynni að heilsufari Blessing myndi hraka í fluginu.

Nýr tónn hjá ÚTL

Aðspurður segir hann lögmannastofu sína nú skoða hvað næstu skref verði. Fyrir liggi að erfitt verði að vera í samskiptum við konurnar af sökum fjarlægðar.

„Til dæmis að gera skýrslu fyrir dómi í gegnum fjarfundarbúnað með túlk er bara oft mjög erfitt,“ segir Helgi og bætir við að hann ásamt sjö starfsmönnum á lögmannastofu hans hans skoði nú næstu skref og vinkla í málinu. Konurnar njóti nú aðstoðar hjálparsamtaka hér á landi. 

„Það er verið að vinna að því í gegnum hjálparsamtök að aðstoða þær úti. Það er ekki víst að það verði lendingin að reyna aftur hér,“ segir Helgi en hann segir konurnar í afar viðkvæmri stöðu enda séu þær fórnarlömb mansals.  

„Þetta er held ég í fyrsta skipti þar sem að það er læknisvottorð sem segir berum orðum að það sé lífshættulegt og óforsvaranlegt og það er samt gert. Því ég veit um önnur mál þar sem að það kom læknisvottorð og þá var það stoppað. Þannig þetta er nýr tónn.“

Hann segir vissulega hægt að deila um þennan málaflokk almennt en að erfitt sé að vera sammála því að vísa veikri konur úr landi gegn tilmælum læknis. Spurður hvort hann telji brottvísunina tengjast nýrri stefnu stjórnmála í Útlendingamálum með beinum hætti svarar Helgi:

„Ég get ekki svarað því öðru vísi en að það sé auðvelt að ímynda sér það.“

Helgi Þorsteinsson Silva, lögmaður Blessing Newton.
Helgi Þorsteinsson Silva, lögmaður Blessing Newton. Ljósmynd/Aðsend

Neyðarlegt fyrir stjórnvöld

Aðspurður segir Helgi þó fordæmi um að úrskurðum sem þessum sé hnekkt eftir að fólk sé farið úr landi, þó það sé vitaskuld flóknara.

„Það er að mínu mati alltaf frekar neyðarlegt fyrir stjórnvöld þegar það er búið að framkvæma eitthvað sem er síðan ekki byggt á réttu.“

Nefnir hann sem dæmi mál 27 hælisleitenda, sem margir hverjir voru Palestínumenn, sem ríkið sendi úr landi á meðan á heimsfaraldrinum stóð. Þá hafi hann varað við brottvísun þeirra með vísan til máls sem hann hafði nýlega unnið í héraði. 

„Svo kom frá kærunefnd, eins og ég sagði að þeir ættu allir rétt á efnismeðferð, langflestir, og þá þurfti að boða fólk í viðtal sem var í Grikklandi. Fólk þurfti þá að koma hingað og fara í viðtal og voru frá Palestínu þannig að þeir fengu náttúrulega bara vernd í viðtalinu,“ segir Helgi. 

„Ég fór nú ekki svo langt að gera skaðabótakröfu á ríkið. En þarna voru einstaklingar sendir með valdi til Grikklands og svo nokkrum dögum seinna, eða vikum, þá féll úrskurður hjá kærunefnd um að þeir ættu rétt á efnismeðferð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert