Reitir fasteignafélag kynnti nýtt borgarhverfi við Kringluna á fundi Reykjavíkurborgar í Sambíóunum Kringlunni í dag.
Á sama tíma var opnuð sýning á þessum drögum að deiliskipulagstillögu fyrir almenning á jarðhæð í göngugötu Kringlunnar.
Í tilkynningu frá fasteignafélaginu segir að um sé að ræða drög að deiliskipulagstillögu 1. áfanga Kringlusvæðis, sem nær til lóðanna Kringlan 1-3 og Kringlan 5.
„Meginmarkmið tillögunnar er að móta nýtt og þétt borgarumhverfi þar sem margbreytileikinn fær notið sín. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir allt að 450 íbúðum. Byggðamynstur mun einkennast af fjölbreyttum hlutföllum og útliti en gert er ráð fyrir að flest íbúðahúsanna verði þriggja til sex hæða byggingar en einnig verður boðið upp á útsýnisíbúðir sem telja allt að 14 hæðir,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Skipulag hverfisins er unnið samkvæmt BREEAM Communities sjálfbærnistaðlinum og verður umferð akandi, hjólandi og gangandi er gert jafnhátt undir höfði með sérstakri áherslu á gönguvænt umhverfi.
„Við sjáum fyrir okkur líflegt borgarhverfi með áherslu á skjólsæl græn almenningssvæði sem styrkir nærsamfélagið með miðjusettu torgi sem umlukið er veitinga- og kaffihúsum auk menningartengdri starfsemi. Tillagan gerir ráð fyrir að breyta gömlu prentsmiðju Morgunblaðsins í menningarmiðstöð sem felur í sér að hluti sögunnar verður partur af hinu nýja borgarhverfi,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita fasteignafélags, í tilkynningunni.
Gert er ráð fyrir að hægt verði að hefja framkvæmdir snemma á árinu 2025 og fyrsti áfangi af þremur á Kringlusvæðinu öllu verði fullbyggður síðla árs 2030.