Nýr skóli í Laugardal á teikniborðinu

Laugardalurinn. Fjær eru Laugarnes og hafnarsvæðin.
Laugardalurinn. Fjær eru Laugarnes og hafnarsvæðin. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í borgarkerfinu er nú til skoðunar að byggja nýjan skóla fyrir unglingastig grunnskóla í Laugardalnum í Reykjavík. 

Áður hafði skóla-og frístundaráð Reykjavíkurborgar ákveðið að láta byggja við skóla sem fyrir eru í hverfinu: Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla. Í tilkynningu frá borginni kemur fram að forsendur hafi töluvert breyst og nú sé málið skoðað upp á nýtt. 

Samþykkt var í skóla- og frístundaráði í gær að óska eftir umsögnum um tillögu sem felur í sér að byggður verði nýr unglingaskóli í hjarta Laugardals. Boðað verður til samtals með skólasamfélaginu og öðrum íbúum í hverfinu á næstum vikum,“ segir í tilkynningunni. 

Lagt er til að byggður verði nýr unglingaskóli fyrir elstu árganga úr skólunum þremur auk nemenda á unglingastigi í nærliggjandi uppbyggingarreitum (á Orkureitnum og í Skeifunni). 

Mikil viðhaldsþörf

Starfshópur sem vinnur að undirbúningi framkvæmda vegna skóla-og frístundastarfs í Laugardalnum kynnti skýrslu á fundi ráðsins. Þar kom fram að viðhaldsþörf á byggingum skólanna þriggja sé umfangsmikil. 

Flóknar viðhaldsframkvæmdir samhliða byggingu viðbygginga eru taldar raska skólastarfi meira og í lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir.“

Hannes stýrir verkefninu

Hannesi Frímanni Sigurðssyni hjá 3H Raðgjöf hefur verið falið að stýra verkefninu varðandi framtíð skólahúsnæðis í Laugardal. 

„Hann mun samhæfa og stýra þessu umfangsmikla heildarverkefni um framtíð skóla- og frístundastarfs í Laugardalnum. Jafnframt mun hann ásamt vinnuhópi sem stofnaður hefur verið sjá um að undirbúa og samræma viðhaldsframkvæmdir í hverfinu og tryggja viðeigandi bráðabirgðahúsnæði fyrir skóla- og frístundastarf á framkvæmdatíma. Sérstök áhersla verður lögð á að fá að borðinu fulltrúa frá skólunum þremur, úr hópi starfsmanna og nemenda.

 Fundað verður á næstu vikum með starfsfólki, stjórnendum og foreldrum til að kynna skýrsluna og þá vinnu sem er framundan. Í framhaldi af kynningunum verður kallað eftir umsögnum frá fulltrúum þessara hópa,“ segir einnig í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert