Pétur úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald

Pétur Jökull Jónasson verður áfram í varðhaldi.
Pétur Jökull Jónasson verður áfram í varðhaldi. Samsett mynd

Pétur Jökull Jónsson mun sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 21. maí vegna stóra-kókaínsmálsins svokallaða en lögreglan hefur sterkan grun um að hann sé viðriðinn málið. Er það meðal annars byggt á rannsókn á flugferðum Péturs og ummælum annarra sem höfðu verið dæmdir í málinu.

Pétur kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur en Landsréttur hefur nú staðfest úrskurðinn. Landsréttur kvað upp úrskuð sinn 3. maí en hann var ekki birtur fyrr en í gær. 

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð ákæruvaldsins er rannsókn málsins lokið og málið á borði héraðssaksóknara, sem mun taka ákvörðun um framhald þess. Pétur Jökull neitar sök og segist ekki hafa fengið réttláta málsmeðferð. Kemur þetta fram í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms.

Hélt því fram að framburður vitnis hefði ekki legið fyrir

Krafa Péturs þegar hann kærði gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms var að tveir landsréttardómarar myndu víkja sæti vegna þess að þeir hefðu ranglega sagt við uppkvaðningu fyrri úrskurðar að framburður eins vitnis hafi ekki legið fyrir í málinu.

Í úrskurðinum staðfesti hins vegar Landsréttur að framburður vitnisins hafi borist rafrænt frá héraðsdómi og hafi legið fyrir Landsrétti þegar ákvörðun um áframhaldandi gæsluvarðhald var tekinn.

Dæmt var í stóra-kókaínmálinu í apríl í fyrra. Voru þá fjórir menn dæmdir í sex til tíu ára fangelsi fyrir innflutning á tæplega 100 kg af kókaíni frá Brasilíu með timbursendingu, en efnin komust þó aldrei á leiðarenda. Landsréttur mildaði svo dómana niður í fimm til níu ár rúmlega hálfu ári seinna.

Öll spjót beindust að Pétri

Ljóst er að lögregla hefur þó rannsakað viðveru fimmta mannsins í málinu og virðast þar öll spjót beinast að Pétri Jökli. Lýsingar eins þeirra dæmdu manna virðast renna stoðum undir grunsemdir lögreglu. Einnig hefur lögregla rannsakað flugferðir Péturs frá Íslandi og til Brasilíu og virðist það hafa styrkt grun hennar enn frekar.

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að lögregla hafi skorað á Pétur að koma til landsins vegna rannsóknar málsins en Pétur sinnti því ekki. Kemur þá fram að eftir að Pétur opnaði Instagram-reikning sinn, sem áður hafði verið læstur, kom í ljós hvar hann væri staddur og í kjölfarið hafi verið gefin út handtökuskipun af Héraðsdómi Reykjavíkur. Lýst var eftir honum alþjóðlega og einnig gefin út evrópsk handtökuskipun á hendur honum.

Í kjölfarið hafi Pétur haft samband í gegnum lögmann sinn og beðið um að fá að koma til landsins. Var hann svo handtekinn við komuna til Íslands 27. febrúar og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. mars.

Hefur Pétur setið í gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurðum héraðsdóms, eða þá snúið við af Landsrétti þegar héraðsdómur hefur synjað. Í ljós er nú síðan komið að Pétur mun sitja í áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 21. maí.

Neitar sök

Pétur Jökull hefur alfarið neitað sök í skýrslutökum hjá lögreglu og ekki tjáð sig i út í þau gögn sem hafa verið lögð fyrir hann og hann spurður út í, svo sem staðsetningar á farsímum og ferðalög milli landa, tengsl og samskipti við aðra sakborninga og dómfelldu í málinu, né annað sem borið var undir hann.

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að ef einstaklingur sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og Pétur er sakaður um, gangi laus áður en máli lýkur með dómi muni það valda hneykslun í samfélaginu og særa réttarvitund almennings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert