Stefna á að afgreiða útlendingafrumvarpið á morgun

Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, segir að svokallað útlendingafrumvarp verði afgreitt úr nefndinni á morgun.

Málinu var vísað til allsherjar- og menntamálanefndar eftir fyrstu umræðu á Alþingi og hefur verið til umfjöllunar þar síðan.

„Málið er á dagskrá á nefndarfundi allsherjar- og menntamálanefndar á morgun þar sem við stefnum að því að afgreiða málið úr nefndinni,“ segir Bryndís við mbl.is.

Bryndís segir að málið hafi verið rætt á mörgum fundum og að það sé vel yfirfarið af nefndarmönnum.

Síðasti þingfundur fyrir forsetakosningarnar er á föstudaginn. Spurð hvort hún sé bjartsýn á að frumvarpið komist á dagskrá Alþingis áður en þingið fer í frí segir Bryndís:

„Ég hef væntingar til þess að málið verði tekið á dagskrá á fimmtudag en fimmtudagurinn og föstudagurinn eru þingfundardagar,“ segir Bryndís.

Hún segist vongóð um að frumvarpið verði samþykkt.

„Ég treysti því að það verði samþykkt. Það er alla vega meirihluti fyrir því. Ég held að við séum með góðar og mikilvægar breytingar á þessum mikilvæga lagabálki sem ég held að flestir sem hafi sett sig almennilega inn í þessi mál ættu að geta sameinast um að séu til bóta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert