Meðferðardeild Stuðla lokað tímabundið í sumar

Stuðlum er ætlað að þjóna börnum á aldrinum 12-18 ára.
Stuðlum er ætlað að þjóna börnum á aldrinum 12-18 ára. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meðferðardeild á Stuðlum verður lokað í sumar frá 12. júlí til 8. ágúst. Þetta staðfestir Úlfur Einarsson forstöðumaður Stuðla í samtali við mbl.is. Hann segir lokunina vera bæði vegna fjárhagslegra forsendna auk þess sem að það vanti fagfólk til að sinna meðferðinni.

Stuðlar er meðferðarheimili fyrir börn og ungmenni á aldrinum 12 til 18 ára. Rekur meðferðarmiðstöðin þrjár deildir; neyðarvistun, meðferðardeild og stuðningsheimilið Fannafold.

Úlfur segir starfsemina mjög sérhæfða og ekki sé hægt að ætlast til þess að hægt sé að fá sumarstarfsfólk, þar sem starfsemin krefst þess að starfsmenn hafi viðeigandi þjálfun og sérhæfingu.

Lokunin í sumar verður nýtt í að fara í miklar endurbætur á húsnæði Stuðla sem ekki er hægt að gera á meðan skjólstæðingar eru vistaðir þar, segir Úlfur.

Sigmar gagnrýninn á lokun meðferðarúrræða

Í dag fór fram þingfundur á Alþingi þar sem Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar gagnrýndi lokun meðferðardeildar Stuðla. Hann sagði það óverjandi að lykilstofnunum sem þjóna veiku fólki sé lokað yfir sumartímann í sparnaðarskyni.

„Þetta er auðvitað enn ein birtingarmynd þess hve þjónusta við fólk á öllum aldri sem glímir við fíknisjúkdóm er brothætt á Íslandi.“

Sigmar beindi gagnrýni sinni að ríkisstjórninni og sagði þetta vera birtingarmynd forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar.

Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá sagði hann að afleiðingar lokana séu að biðlistar lengist, vandinn færist til seinni tíma og álagið á kerfið eykst til lengri tíma litið. Sigmar sagði þetta skila sér í verri þjónustu fyrir börn og ungmenni og að þau muni þjást vegna þessa.

„Höfum eitt á hreinu, sumar stofnanir eru svo mikilvægar að þeim má ekki skella í lás á sumrin. Það gildir um meðferðardeild Stuðla, það gildir líka um meðferðarstöðina Vík hjá SÁÁ en samt er lokað vegna fjárskorts.“

Þá var tilkynnt fyrir skömmu að meðferðarstöðin Vík yrði ekki opin yfir sumartímann í ár.

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að Stuðlum yrði lokað í sumar, en hið rétta er að meðferðardeild Stuðla, sem er ein þriggja deilda meðferðarstöðvarinnar, verður lokað. Neyðarvistun og stuðningsheimili verða áfram opin. Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka