Dæmi eru um að sumarstarfsfólk Icelandair og Isavia hafi ekki náð að hefja störf á tilsettum tíma vegna tafa við afgreiðslu bakgrunnsathugana hjá lögreglunni á Suðurnesjum.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur lögregluembættið á Suðurnesjum tekið sér óvenju langan tíma við að afgreiða bakgrunnsathuganir starfsfólks flugfélaga og Keflavíkurflugvallar.
Í skriflegu svari Isavia segir að tafirnar hjá lögreglunni hafi haft áhrif á starfsemi fyrirtækisins, en þó takmörkuð. Þá er fullyrt að tafirnar hafi ekki og muni ekki bitna á þjónustu við viðskiptavini Isavia.
Í skriflegu svari Icelandair við fyrirspurn mbl.is kemur fram að tafirnar hafi fram að þessu ekki haft áhrif á starfsemina.
„Við eigum í góðu samstarfi við bæði lögregluna og Isavia og höfum fundið fyrir því að úrbætur hafa verið gerðar svo við höfum fulla trú á að afgreiðslutími bakgrunnsathugana muni ekki hafa áhrif á flugáætlun okkar í sumar,“ segir enn fremur í svarinu.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir mikið álag hafa verið á þeim sem sinna bakgrunnsathugunum hjá lögreglu undanfarið. Hafi veikindi meðal annars sett strik í reikninginn.
Hann tekur þó fram að embættið sé að afgreiða bakgrunnsathuganir innan þess tíma sem því er ætlað.
Þá getur hann ekki staðfest að embættið hafi tekið sér óvenju langan tíma við afgreiðslu bakgrunnsathugana.
Segir hann lögreglu jafnframt í góðu samstarfi við þá sem málið varðar.