Þórdís Kolbrún á leið til Georgíu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hélt í dag áleiðis til Georgíu ásamt utanríkisráðherrum Eistlands, Lettlands og Litháens.

Í skriflegu svari frá fjölmiðlafulltrúa utanríkisráðuneytisins til mbl.is kemur fram að ráðherrarnir muni eiga fundi með forseta Georgíu, fulltrúum stjórnvalda, stjórnarandstöðu og frjálsra félagasamtaka.

Með ferðinni vilja Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin styðja við vegferð Georgíu til þátttöku í samfélagi evrópskra lýðræðisríkja.

Ferð utanríkisráðherranna er farin í framhaldi af sameiginlegri yfirlýsingu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8-ríkjanna) sem gefin var út síðasta föstudag. 

Í henni kom meðal annars fram að Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin hafi stutt lýðræðislega og efnahagslega þróun Georgíu allt frá þjóðin endurreisti sjálfstæði.

Mikil mótmæli hafa verið í Georgíu á undanförnum dögum en fjölmiðlalög sem kveða á um að fjölmiðlar sem sækja meira en 20% fjármagns síns frá erlendu ríki verði að skilgreina sig sem fjölmiðil sem starfar í þágu erlends ríkis hefur verið illa tekið. Lögin voru samþykkt á þinginu í dag og reyndu mótmælendur að brjóta sér leið inn í þinghúsið eftir að þau voru samþykkt.

Svipuð lög hafa verið í gildi í Rússlandi síðan árið 2012. Mótmælendur hafa gagnrýnt það að taka upp rússnesk lög og hafa þeir sagt að með því að samþykkja lögin sé verið að færa sig nær gömlu Sovétríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert