Þórhildur Sunna með skilaboð frá Julian Assange

Þórhildur Sunna heimsótti Julian Assange í Belmarsh-fangelsi í dag.
Þórhildur Sunna heimsótti Julian Assange í Belmarsh-fangelsi í dag. Samsett/Eggert Jóhannesson/AFP

„Ég ætla nú ekki að segja að ég geti tryggt frelsi Julian Assange, en þessi skýrsla hefur sitt hvað að segja, segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata og vara­formaður Íslands­deild­ar Evr­ópuráðsþings­ins. 

Þórhildur er í Lund­ún­um um þessar mundir vegna skýrslu­gerðar Evr­ópuráðsins um varðhaldið yfir Ju­li­an Assange og heimsótti Assange í Belmarsh-fangelsinu þar sem hon­um hef­ur verið haldið án sak­fell­ing­ar í fimm ár.

Er í skýrslunni lagt mat á hvort Assange sé í raun póli­tísk­ur fangi, og eigi því að sleppa án taf­ar, og sömu­leiðis hvort meðferð á honum sé talin hafa kæl­andi áhrif á tján­ing­ar­frelsi í Evr­ópu. 

Augljóst að fangelsisvistin hefur haft áhrif

Í samtali við mbl.is kveðst Þórhildur hafa hitt bæði Assange og eiginkonu hans Stellu Assange en einnig Kristinn Hrafnsson, rannsóknarblaðamann og núverandi ritstjóra WikiLeaks, lögmann Assange ásamt sérfræðingum sem að málinu koma. 

„Mér fannst mjög áhugavert og merkilegt að hitta Julian Assange. Mér fannst hann ennþá vera með þá skýru sýn sem að leiddi hann til þess að vinna þá vinnu sem hann vann, að birta þessi gögn sem hann birti og hann er ennþá að hugsa um málstaðinn,“ segir Þórhildur. 

„En það er líka alveg ljóst að allur þessi tími í fangelsi og frelsissviptingin í sendiráðinu hefur augljóslega haft áhrif á hann.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fyrir utan Belmarsh fangelsið.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fyrir utan Belmarsh fangelsið. Ljósmynd/Evr­ópuráðsþingið

Ræddu saman í tvær klukkustundir

Hún segir fundinn þó hafa verið góðan og að hún hafi rætt við Assange í um tvær klukkustundir. Þar hafi þau meðal annars rætt skýrsluna og horfur hans í málinu. Assange hafi aftur á móti beðið hana að færa umheiminum skilaboð sín. 

„Ég fagna vinnu Þórhildar að skýrslu um fangelsun mína og kælandi áhrif hennar á mannréttindi í Evrópu. Evrópuráðið er mikilvægasti vörður mannréttinda í Evrópu og hefur mikla reynslu af því að standa vörð um tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi, sem er hornsteinn mannréttinda í lýðræðissamfélagi.“

Spurð hvort hún sé vongóð eftir fundinn með Assange kveðst Þórhildur ekki geta sagt það enda nálgist hún málið frá lögfræðilegu sjónarhorni þar sem hún sjái ástæðu til þess að kanna mál Assange. 

„En það er auðvitað verulegt áhyggjuefni þegar ríki eins og Bandaríkin seilast það langt til að fá mann framseldan til Bandaríkjanna fyrir að uppljóstra um glæpi þeirra.“

Málsmeðferð í máli Assange á mánudaginn

Aðspurð segir hún erfitt að segja til um hvaða þýðingu skýrslan kunni að hafa fyrir mál Assange, þar sem að hún sé hvorki tilbúin né samþykkt enn sem komið er. Verði hún samþykkt komi aftur á móti til greina að mannréttindadómstóll Evrópusambandsins líti til skýrslunnar. 

„Fyrir utan það að ákall frá ráðinu gagnvart aðildarríkjum sínum, eins og t.d. Bretlandi, hefur ákveðin áhrif þó að við getum ekki gefið út bindandi ákvarðanir eins og mannréttindadómstóllinn.“

Ekki liggi fyrir hvað taki við næst í máli Assange að sögn Þórhildar en málsmeðferð fari fram á mánudaginn um hvort hann fái áfrýjunarleyfi eða hvort hann verði framseldur til Bandaríkjanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert