Alls hafa 138 einstaklingar fengið tilkynningu um niðurfellingu á þjónustu á grundvelli 8. mgr. 33. gr. laga um útlendinga síðan í fyrra. Þrátt fyrir þennan fjölda tilkynninga um þjónustusviptingu þá hafa aðeins 32 einstaklingar verið sviptir þjónustu á sama tíma.
Þetta kemur fram í svari Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um þjónustusviptingu.
Þessi tiltekna málsgrein, 8. mgr. 33. gr. laga um útlendinga, tók gildi með breytingum á útlendingalögum síðasta vor og kveður á um að útlendingar eigi rétt á þjónustu í að hámarki 30 daga eftir að hafa fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd.
„Útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd nýtur áfram réttinda samkvæmt þessari grein þar til hann hefur yfirgefið landið en þó að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin varð endanleg á stjórnsýslustigi. Að þeim tímafresti loknum falla réttindin niður,“ segir í 8. málsgrein.
Þó að 138 einstaklingar hafi fengið tilkynningu um niðurfellingu þjónustu þá kemur fram í svari dómsmálaráðherra að aðeins 32 einstaklingar hafa misst þjónustu á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis.
„Ríkislögreglustjóri tilkynnir um rétt til þjónustu í 30 daga þegar viðkomandi útlendingur kemur í þjónustu til embættisins sem er að jafnaði nokkrum dögum eftir að endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi er birt,“ segir meðal annars í svari dómsmálaráðherra.
„Hafi útlendingur ekki yfirgefið landið eða úrræðið innan frestsins eða verið í samstarfi við lögreglu um öflun ferðaskilríkja eða annan undirbúning flutnings fellur þjónustan niður lögum samkvæmt.“
Ríkislögreglustjóra er heimilt að fresta niðurfellingu réttinda samkvæmt 9. mgr. 33. gr. laga um útlendinga og hefur ríkislögreglustjóri fengið beiðnir um frestun.
Samkvæmt svari dómsmálaráðherra hefur ríkislögreglustjóri hafnað þremur beiðnum um niðurfellingu réttinda og í tveimur tilvikum var ákvörðun ríkislögreglustjóra kærð til kærunefndar útlendingamála.
Í bæði skipti þá staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun ríkislögreglustjóra.