Langflestir Íslendingar eru hlynntir því að leyfa dánaraðstoð á Íslandi, samkvæmt nýrri könnun Prósents.
Um 77% þjóðarinnar eru hlynnt því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi, um 15% eru hvorki hlynnt né andvíg og um 7% eru andvíg, samkvæmt könnuninni en svarendur voru rúmlega 1.200 talsins.
Með dánaraðstoð er átt við að hjálpa manneskju að binda enda á líf sitt með mannúðlegum hætti á grundvelli yfirlýsts samþykkis hennar.
Í könnun Prósents voru þátttakendur spurðir hvort þeir væru hlynntir eða andvígir því að dánaraðstoð yrði leyfð á Íslandi og hversu sammála eða ósammála þeir væru því að það eigi að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um lögleiðingu dánaraðstoðar.
Þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir fylgi flokka má sjá að kjósendur Pírata eru marktækt hlynntari því að leyfa dánaraðstoð en kjósendur allra annarra flokka nema tveggja, þ.e. Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins.
Kjósendur Miðflokksins og Vinstri grænna eru marktækt andvígari en kjósendur annarra flokka.
Um 62% eru sammála því að það eigi að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um lögleiðingu dánaraðstoðar, um 21% eru hvorki sammála né ósammála og um 17% eru ósammála.
Þar er marktækur munur á afstöðu kynja. Konur eru að jafnaði meira sammála því að halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um lögleiðingu dánaraðstoðar samanborið við karla, þ.e. 65% kvenna á móti 59% karla.