Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra er brugðið yfir skotárásinni á Robert Fico, slóvakíska starfsbróður sinn.
Fico er í lífshættu eftir að hafa verið skotinn margsinnis að loknum ríkisstjórnarfundi eftir hádegi í dag.
„Mér blöskrar hryllileg árásin á Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu. Slík ofbeldisverk eiga sér engan stað í friðsömum lýðræðisríkjum. Hugur minn er hjá Fico, fjölskyldu hans og vinum á þessum erfiðu tímum,“ skrifar Bjarni á ensku í færslu á bandaríska samfélagsmiðlinum X, áður Twitter.
Er Fico sagður hafa verið skotinn margsinnis og var hann fluttur með þyrlu til borgarinnar Banská Bystrica, nærri bænum Handlová þar sem honum var sýnt banatilræðið.