Hátt í 200 manns sóttu forsetafund Morgunblaðsins með Baldri Þórhallssyni á Hótel Selfossi í gærkvöldi og sköpuðust líflegar umræður um ýmis mál.
Á meðal þess sem rætt var um var Icesave, en Baldur var sérstaklega inntur eftir svörum um það hvernig hann myndi ekki eftir því hvað hann kaus í þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave, eins og hann upplýsti í Spursmálum undir lok síðasta mánaðar.
„Ég er einfaldlega of heiðarlegur í þessari kosningabaráttu til þess að segja ósatt þótt það hagnist mér pólitískt,“ sagði Baldur meðal annars og bætti við seinna:
„Ég var mjög óviss um þetta – hvort ég ætti að greiða með eða skila auðu – fram á síðasta dag.“
Hann útskýrði að sem fræðimaður sem hefði veitt álit á samningunum á sínum tíma hefðu hans persónulegu skoðanir verið aukaatriði.
Blaðamennirnir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson spurðu Baldur ýmissa spurninga en svo var einnig opnað fyrir spurningar frá fundarsal.
Ein kona rifjaði upp grein sem skrifuð var um Baldur og eiginmann hans, Felix Bergsson, á Heimildinni þar sem greinarhöfundur sagði það ekki sæma forsetaembættinu að hafa samkynhneigt par á Bessastöðum.
Baldur vísaði í kosningabaráttu Vigdísar Finnbogadóttur og umræðuna sem spanst um að einstæð móðir sæktist eftir forsetaembættinu.
„Hvort sem mér yrði treyst fyrir embættinu eða ekki þá að minnsta kosti vona ég að ég geti rutt brautina fyrir annað hinsegin fólk sem kemur kannski í kjölfarið,“ sagði hann og bætti við seinna:
„Ég er einfaldlega forsetaframbjóðandi, ekki hommi í framboði,“ sagði Baldur og stóðu fundargestir allir þá upp úr stólum og klöppuðu fyrir Baldri.
Í umræðum um utanríkis- og varnarmál sagði Baldur að forsetinn ætti ekki að óttast að ræða þau mál.
„Að sjálfsögðu fylgir forseti utanríkisstefnu sitjandi ríkisstjórnar og forsetar hafa gert það. Eigi að síður finnst mér mikilvægt að hafa forseta sem talar um mikilvægi þess að við gætum að öryggis- og varnarmálum. Við gætum að almannavörnum í landinu.
Ef forsetinn má ekki tala um mikilvægi almannavarna, þá hvað? Við megum ekki gelda svo embættið að það geti ekki ávarpað nokkurn hlut. Ég held að við viljum ekki forseta sem talar bara um að grasið sé grænt og himinninn blár,“ sagði Baldur.
Baldur mælist með þriðja mesta fylgið í nýrri skoðanakönnun Prósents, eða tæplega 18%. Stefán spurði hann hvernig hann hygðist rífa upp fylgið og þá svaraði Baldur:
„Það er bara að skerpa línurnar, nota þennan þátt til þess að koma okkar stefnumálum á framfæri og kynna okkur,“ sagði hann og útskýrði að flestir þekktu hann enn sem fræðimann og því væri hann enn að kynna sig og sín stefnumál.
Hjálpar það þér í kosningabaráttunni að vera stjórnmálafræðingur eða flækir það málin?
„Ég held að það hjálpi mér því mér finnst auðveldast að eiga við spurningar sem snúa að valdi forsetans,“ sagði hann og bætti við að hann hefði fjallað um íslenska stjórnkerfið, alþjóðasamskipti og utanríkisstefnu Íslands.
Það var enginn skortur á stuðningsmönnum Baldurs í salnum en eins og fyrr segir sóttu hátt í 200 manns fundinn og var salurinn þéttsetinn af fólki sem kom langt að af Suðurlandinu.
„Ég er hálfur Selfyssingur, ég fæddist hér á Selfossi og dvaldi hér fyrstu átta mánuði minnar ævi þar til móðir mín flutti til föður míns í Ægissíðu í Rangarþingi,“ sagði Baldur.
Baldur hefur verið á ferð og flugi um landið til að heimsækja kjósendur eins og aðrir frambjóðendur og hann sagði að móttökurnar hefðu verið góðar.
„Það eru gríðarlega vel sóttir fundirnir sem við höfum haldið. Það er nánast alls staðar fullt út úr dyrum og við finnum alveg gríðarlega mikla hlýju, væntumþykju og stuðning hvar sem við komum.“
Í upphafi fundar voru sérstakir álitsgjafar fengnir til að ræða stöðuna og spá í spilin um forsetakosningarnar. Kjartan Björnsson, rakarameistari og forseti bæjarstjórnar Árborgar, og Aldís Hafsteinsdóttir sveitarstjóri Hrunamannahrepps voru álitsgjafarnir að sinni og voru sammála um að um mjög spennandi kosningar væri að ræða.
„Ég er sannfærður um það að 70-80% þjóðarinnar láta hjartað ráða í svona kosningum,“ sagði Kjartan.
Hann sagði að um helmingur sunnlenskra karlmanna sem hefðu sótt rakarastofuna hans að undanförnu væri enn óákveðinn og því gæti margt breyst. Aldís kvaðst ánægð að sjá Höllu Tómasdóttur taka stökk í könnunum þar sem það myndi gefa henni meira sviðsljós í umræðuþáttum.
„Hún varð næstum því forseti síðast þannig að hún á mikið inni, ég er sannfærð um það,“ sagði Aldís. Hún sagði að hópur frambjóðenda væri öflugur og sama hver bæri sigur úr býtum þá mætti þjóðin vel við una.
„Ég held að þetta verði mjög spennandi. Ég spái því að þetta eigi eftir að jafnast, við eigum eftir sjá þennan þéttast,“ sagði Aldís.