Endurnýja samning um áratugagamalt verkefni

Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar og Jónatan Garðarsson, formaður …
Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands færðu Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra íslenskar birkiplöntur við undirritun samningsins. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Búið er að endurnýja samning um landgræðsluskóga til ársins 2029 en verkefnið hefur staðið yfir frá árinu 1990. Var verkefninu upphaflega hleypt af stokkunum í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra, Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Ágúst Sigurðsson forstöðumaður Lands og skógar undirrituðu samninginn í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Gróðursett á 150 mismunandi svæðum

„Landgræðsluskógar eru samstarfsverkefni ríkisins og skógræktarfélaganna. Markmið verkefnisins er að græða lítt og ógróið land með fjölbreyttum skógum og stuðla þannig að ræktun skóga til útivistar fyrir almenning, bættum kolefnisbúskap lands, endurheimt vistkerfa og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni,“ segir í tilkynningunni.

Síðan verkefnið hófst er búið að gróðursetja rúmlega 24,2 milljónir plantna á 150 mismunandi svæðum sem telja samtals um 770 ferkílómetra. Land og Skógur hefur eftirlit með framkvæmd samningsins.

Langflest ræktunarsvæði landgræðsluskóga eru á landi í eigu sveitarfélaga, ríkis eða skógræktarfélaganna sjálfra. Skógræktarfélögin sjá um framkvæmd verkefnisins á hverjum stað, að útvega land, friðun og vörslu, gróðursetningu og umhirðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert