Lögreglan á Suðurlandi rannsakar enn andlát sem varð í sumarbústað í Kiðjubergi á Suðurlandi í lok apríl.
Þetta segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Selfossi, í samtali við mbl.is, og bætir við að rannsókninni miði vel. Það sé framgangur á hverjum degi.
Fjórir menn voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald þann 20. apríl grunaðir um aðild að málinu. Gæsluvarðhaldi yfir tveimur þeirra var aflétt tveimur dögum seinna, en hinir tveir verða í gæsluvarðhaldi til 23. maí.
Málið er rannsakað sem manndráp og er nokkuð síðan lögreglan taldi sig vera komna með mynd á það sem gerðist.
Lögregla er þó enn að safna gögnum í tengslum við rannsókn málsins, að sögn Jóns Gunnars.