Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn hafa sameinast Náttúrufræðistofnun Íslands en Alþingi samþykkti í gær frumvarp þess efnis. Við breytingarnar fær stofnunin nýja heitið Náttúrufræðistofnun.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að Náttúrufræðistofnun fari með þau hlutverk og verkefni sem Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn hafi í dag.
„Ný stofnun á að efla faglegt starf á sviði gagnaöflunar, rannsókna, mælinga, kortlagningar og vöktunar á náttúru Íslands, sem og að tryggja markvissa uppbyggingu gagnasafna og rannsóknainnviða með góðu aðgengi að gögnum og áreiðanlegum rauntímamælingum. Þá er áhersla lögð á öflugar grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir sem verða m.a. unnar á grundvelli samráðs milli stofnana,“ segir enn fremur á vef Stjórnarráðsins.
Lögin eru liður í umfangsmiklum stofnanabreytingum sem felur í sér að sameina stofnanir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, þannig að í stað átta verði til þrjár öflugri og stærri stofnanir.
Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í tilkynningunni að það sé ánægjuefni að sjá nýja Náttúrufræðistofnun verða að veruleika.
„Stofnuninni er ætlað að hafa skýra og greinargóða yfirsýn yfir náttúru Íslands á hverjum tíma, búa yfir áreiðanlegum gögnum og vera öflug í miðlun og fræðslu. Starfsmenn hinnar nýju stofnunar verða um 80 talsins með starfsstöðvar víða um land. Ég legg sérstaka áherslu á að stuðlað verði að enn frekari þekkingaruppbyggingu og nýsköpun í nýju stofnuninni. Einnig legg ég áhersla á að fjölga störfum á landsbyggðinni í kjörnum sem dreifast um landið,“ er haft eftir ráðherranum.