Skoða að taka upp gjaldskyldu á notkun nagladekkja

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps um loftgæði í …
Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps um loftgæði í Reykjavík, hélt ræðu í upphafi málþings. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stýrihópur um loftgæði í Reykjavík er með til skoðunar að taka upp gjaldskyldu á notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom fram á málþingi um loftmengun á vegum Reykjavíkurborgar í dag.

Stýrihópurinn var stofnaður árið 2023 þar sem markmiðið er að uppfæra viðbragðsáætlun og setja stefnu um loftgæði í borginni. Á máþinginu voru kynntar aðgerðir sem stýrihópurinn er með til skoðunar bæði til lengri tíma og aðgerðir sem hægt er að ráðast í strax.

Skilyrði um dekkjaþvott á framkvæmdarsvæðum

Meðal aðgerða sem stýrihópurinn skoðar að ráðast í strax er að setja skilyrði um dekkjaþvott og vökvun á þurru yfirborði á framkvæmdarsvæðum fyrir öll framkvæmdarleyfi sem tengjast stærri framkvæmdum. Þá verða fyrirtæki, stofnanir og starfsfólk Reykjavíkurborgar hvött til þess að stunda fjarvinnu þá daga sem loftmengun fer yfir tilsett mörk, auk þess sem kallað verður eftir aukinni áherslu gegn notkun nagladekkja í borginni.

Tillögur stýrihópsins að aðgerðum sem taka lengri tíma að framkvæma eru meðal annars gjald á notkun nagladekkja innan borgarmarka og tímabundin lækkun hámarkshraða á þjóðvegum í þéttbýli og stofnbrautum.

Takmarkanir á umferð dísilbifreiða til skoðunar

Þá er einnig lagt til bann við akstri dísilbifreiða þá daga sem veðuraðstæður skapa auknar líkur á mikilli köfnunarefnisdíoxíðmengun, auk þess er til skoðunar að græn svæði verði afmörkuð í skipulagi þar sem ákveðin ökutæki mega ekki keyra inn á. Svipað fyrirkomulag hefur verið í Danmörku og Svíþjóð þar sem „græn svæði“ eru skilgreind og eru ákveðin ökutæki ekki leyfð innan svæðisins.

Í samtali við mbl.is segir Svava S. Steinarsdóttir, sérfræðingur hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, að stýrihópurinn sé að skoða það að alvöru að taka upp slíkt kerfi. En það krefjist mikils undirbúnings af hálfu borgarinnar.

Svava S. Stefánsdóttir, Hrund Ólöf Andradóttir, Þorsteinn Jóhannsson, Aðalsteinn Haukur …
Svava S. Stefánsdóttir, Hrund Ólöf Andradóttir, Þorsteinn Jóhannsson, Aðalsteinn Haukur Sverrisson og Þröstur Þorsteinsson voru með erindi á málþinginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sérfræðingar á sama máli um aðgerðir

Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor við Háskóla Íslands, Þorsteinn Jóhannsson, loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, og Þröstur Þorsteinsson, prófessor við Háskóla Íslands voru með erindi á málþinginu og voru þau öll á sama máli að besta leiðin til að draga úr svifryki og auka loftgæði sé að draga úr bílaumferð og hætta notkun nagladekkja.

Þröstur Þorsteinsson, prófessor við Háskóla Íslands sagði að helstu mengunarefni vegna umferðar séu svifryk og köfnunarefnisoxíð. Svifryk má rekja til slit gatna, útblástur bíla, byggingaframkvæmda, flugelda og brenna. Þá sagði hann að rekja megi köfnunarefnisoxíð til útblástur bíla, skipa og annarra véla.

Þröstur sagði jafnframt að rekja megi 69 dauðsföll á ári til svifryks í umhverfinu og 28 dauðsföll á ári til á köfnunarefnisdíoxíðmengunar, á Íslandi. Þá segir hann eldra fólk, þungaðar konur, börn og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma viðkvæmastir gagnvart áhrifum þessara efna.

Svifryk yfir Reykjavík.
Svifryk yfir Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka