„Ekki algengt að sjá svona stór grjót“

Grjótið sem féll á veginn.
Grjótið sem féll á veginn. Ljósmynd/Skjáskot

Vegfarandi ók fram á stórt grjót á miðjum veginum við Súðavíkurhlíð í morgun.

Grjótið var stærra en það sem oftast fellur á þennan veg, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. 

Geta auðveldlega eyðilagt bíla

Aðspurður segir Sigurður Guðmundur Sverrisson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, að tilkynning um grjótið hafi borist upp úr klukkan 7 í morgun. Verktakar frá Súðavík hafi í kjölfarið fjarlægt það.

„Það er kannski ekki algengt að sjá svona stórt grjót en það er svolítið mikið um minni steina sem eru að losna,” segir Sigurður og bæti við að þeir geti auðveldlega eyðilagt bíla, hvað þá stórt grjót á borð við þetta.

Hann segir grjótið hafa sem betur fer fallið á beinum vegakafla, sem gefi bílstjórum betri fyrirvara.

Mynd úr safni af grjóthruni úr Súðavíkurhlíð.
Mynd úr safni af grjóthruni úr Súðavíkurhlíð. Ljósmynd/Aðsend

Efnistaka úr hlíðinni

Sigurður nefnir að nokkuð sé um það að grjót falli á veginn á þessum árstíma þegar frost fer úr jörðu. Auk þess er verið að taka efni úr hlíðinni, m.a. vegna framkvæmda við kalkþörungaverksmiðju á Súðavík, og getur það orðið til þess að steinar losni.

Að sögn Sigurðar hefur verið reynt að stækka rásir við veginn til að steinar lendi frekar ofan í þeim.

„Þú getur alltaf átt von á þessu þar sem eru svona hlíðar,” bætir hann þó við og nefnir Skutulsfjörð og Hestfjörð sem dæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert