Freistandi að snerta málið ekki með priki

Bryndís Haraldsdóttir er formaður allsherjar- og menntamálanefndar og mælti fyrir …
Bryndís Haraldsdóttir er formaður allsherjar- og menntamálanefndar og mælti fyrir frumvarpinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Önnur umræða um útlendingafrumvarpið svokallaða stendur nú yfir á Alþingi. Þingmenn hófu að ræða frumvarpið upp úr klukkan 14 og munu gera það næstu klukkutimana miðað við mælendaskrána. 

Umræðan hefur þó verið nokkuð hófstillt miðað við það sem stundum hefur gengið á í þingsal þegar eldfim mál eru til umræðu. 

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði til að mynda að málaflokkurinn sé þess eðlis að freistandi hefði verið að „snerta þetta mál ekki einu sinni með priki, víkja sér undan ábyrgð og segja að málaflokkurinn sé í höndum annarra.“ Það væri hins vegar ekki það ábyrga í stöðunni. Frumvarpið sé langt frá því að leysa allar áskoranir sem finna má í þessu málaflokki en ákveðin ákvæði muni styðja við þá vegferð að hennar mati. 

Kristrún Frostadóttir.
Kristrún Frostadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Deilt um dvalarleyfi og fjölskyldusameiningar 

Svo virðist sem flokkarnir á þingi styðji helstu markmið frumvarpsins og margir sem tekið hafa til máls vilja meiri skilvirkni í málaflokknum. 

Frumvarpið var afgreitt úr allsherjar og menntamálanefnd þingsins í gær. Frumvarpið gerir ráð fyrir styttingu gildistíma dvalarleyfa úr 4 árum í 2 ár, auk þess sem að fjölskyldusameiningar verði ekki heimilar fyrr en viðkomandi hafi endurnýjað leyfið sitt a.m.k. einu sinni.

Um þetta atriði virðist vera mest deilt og hafa nokkrir flokkar lagt fram breytingatillögur. 

Einnig eru þingmenn ekki sammála um hvort eða hvert eigi að horfa til á Norðurlöndunum. Þar séu lög um útlendinga mismunandi. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði til dæmis í umræðunni að Miðflokkurinn vilji horfa til Danmörku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert