Gestum á Keflavíkurflugvelli fjölgar enn

Leifsstöð var opnuð árið 1987 en síðan þá hefur mikið …
Leifsstöð var opnuð árið 1987 en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fleiri gestir fóru um Keflavíkurflugvöll í apríl heldur en á sama tíma í fyrra. 

Alls fóru 556.047 gestir um flugvöllinn í apríl samkvæmt Isavia og fjölgaði um 2% á milli ára. Ef til vill mætti segja að fjölgunin sé í rauninni meiri en 2% þar sem páskarnir voru að mestu í mars en voru í apríl 2023. Páskarnir eru sem kunnugt er mikill ferðatími, hvort sem þar er milli landa eða innanlands. 

21 flugfélag nýtti Keflavíkurflugvöll í apríl og var flogið til 65 áfangastaða frá Keflavík. Þeir vinsælustu voru London, Kaupmannahöfn, New York, París og Amsterdam.

Annasamasti dagurinn í apríl var 1. apríl sem var annar í páskum en þá fóru 25 þúsund manns um völlinn. 

Fyrstu fjóra mánuði ársins hefur ferðalögum Íslendinga til útlanda frá Keflavíkurflugvelli fjölgað um 2% miðað við í fyrra og eru það 180 þúsund flugsæti. 

Framundan er annasamasti tími ársins en farþegaspá gerir ráð fyrir 7% aukningu á milli ára frá apríl og fram í október. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert