Kemur ekki til greina að setja gjaldskyldu á nagladekk

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri.
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir í samtali við mbl.is að tillögur stýrihóps um gjaldtöku á notkun nagladekkja innan borgarmarkanna verði ekki samþykktar.

Hann bendir á að embættismenn hafi lagt fram tillögurnar til stýrihópsins, en að stýrihópurinn hafi ekki skilað af sér þessum tillögum. Þá segir Einar það ekki koma til greina að samþykja tillöguna.

„Að mínu áliti kemur það ekki til greina enda höfum við ekki heimildir til að gera það og ég held að það séu aðrar leiðir betri til að draga úr nagladekkja notkun,“ segir Einar.

Embættismenn senda inn tillögur sem stýrihópurinn skoðar

Einar birti í dag færslu á Facebook þar sem hann gerði athugasemd við fréttaflutning mbl.is um málþing um loftmengun sem haldið var á vegum Reykjavíkurborgar í gær. 

Í fréttinni er greint frá því að stýrihópur um loftgæði í Reykjavík sé með til skoðunar að taka upp gjaldskyldu á notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu, en það var á meðal þess sem kom fram á málþinginu og fékk blaðamaður það einnig staðfest á fundinum og í samtali við Svövu S. Steinarsdóttir, sérfræðings hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Í færslu sinni segir Einar það ekki til skoðunar að taka upp gjaldskyldu á notkun nagladekkja í Reykjavík. Hann telji þó mikilvægt að fækka nagladekkjum til að bæta loftgæði. 

Spurður út í færsluna segir Einar að frétt mbl.is sé í raun ekki röng heldur hafi hann frekar verið að lýsa pólitísku afstöðu sinni í færslunni.

Að sögn Einars senda sérfræðingar og embættismenn inn tillögur til stýrihópsins og metur stýrihópurinn þær tillögur í samræmi við stefnu borgarinnar.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert